Tillaga að samkomulagi milli Grikklands og lánadrottna ríkisins var samþykkt í gríska þinginu í vikunni, að stórum hluta til vegna stuðnings Evrópusinnaðra andstæðinga stjórnar Alexis Tzipras, sem sagðist styðja tillöguna með hnífinn við hálsinn. Samkomulagið felur meðal annars í sér neyðarlán upp á 86 milljarða og mjög strangar aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum næstu árin. Stjórnarflokkur Tzipras, Syriza, er mjög klofinn í afstöðu sinni en alls greiddu 32 þingmenn flokksins atkvæði gegn tillögunni og aðstoðarfjármálaráðherra flokksins, Nadia Valavani, hefur sagt af sér embætti þar sem hún getur ekki stutt tillöguna sem felur meðal annars í sér miklar skattahækkanir, skerðingu lífeyris og einkavæðingu ríkiseigna. Það er öllum ljóst að ekki verður auðvelt að fylgja mjög hörðum aðhaldsaðgerðum eftir sem Evrópusambandið, með Þýskaland í fararbroddi, fer fram á. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lagt til að hluti skuldanna verði felldur niður þar sem aðgerðirnar séu óraunhæfar, skuldir gríska ríkisins verði komnar í 200% af landsframleiðslu innan tveggja ára. Fréttatíminn bað Jón Steinsson hagfræðing við Columbia-háskólann í New York um að velta fyrir sér stöðunni.
„Það er ekkert vafamál að Grikkland hefur hagað sér mjög illa í fjármálum og sjálft komið sér í þess stöðu. Stóra spurningin er hvort gríska ríkið eigi að taka afleiðingum gjörða sinna eða ekki.“
Grikkland þarf á EU að halda
„Frá sjónarhóli Grikklands held ég að það séu kannski mistök að reyna að borga þetta til baka,“ segir Jón. „Grikkir hefðu ef til vill þurft að horfast miklu fyrr í augu við þá staðreynd að skuldirnar væru ósjálfbærar. Það hefði ákveðna kosti fyrir Grikki að fara bara á hausinn, en aðeins ef þeir fengju að halda í aðhaldið sem Evrópusambandið veitir þeim. Það eru ekki nema 40 ár síðan Grikkland var einræðisríki, ef þeir dyttu úr sambandinu væru hvorki innviðirnir né myntin nógu sterk til að þola það. Grikkland þarf á aðhaldi Evrópusambandsins að halda.“
Sjónarhóll Þýskalands
Jón segir stöðuna sem uppi er í Evrópu núna snúast aðallega um þrjú atriði frá sjónarhóli Þýskalands, fyrst og fremst um að skapa ekki vont fordæmi fyrir önnur lönd. „Eitt af því sem maður heyrir mikið í umræðunni á Íslandi er hörð gagnrýni á Þýskaland og afstöðu þess til Grikklands. Ég held að sú gagnrýni sé að einhverju leyti einföldun á stöðu mála því Þýskaland og allt evrusvæðið þarf að hugsa mjög vandlega um hvaða fordæmi eigi að setja í þessari erfiðu stöðu. Það er ekkert vafamál að Grikkland hefur hagað sér mjög illa í fjármálum og sjálft komið sér í þess stöðu. Stóra spurningin er hvort gríska ríkið eigi að taka afleiðingum gjörða sinna eða ekki. Sumir telja að Norður-Evrópa eigi að bjarga Grikklandi en það hefur þann mikilvæga ókost að það myndi skapa fordæmi fyrir því að ríki geti hagað sér illa í fjármálum og komist upp með það. Fordæmi sem gæti haft áhrif á þjóðir á borð við Ítalíu, Spán og Portúgal. Grikkland er lítið land og auðvitað er sárt að horfa upp á það sem gríska þjóðin þarf að ganga í gegnum en það væri krísa af allt annari stærðargráðu ef t.d. Ítalía væri í svipaðri stöðu.
„Í öðru lagi snýst þetta um að nota stöðuna sem upp er komin til að fá Grikkland til að breyta innviðum síns samfélags svo þetta gerist ekki aftur. Það er oft talað um að krísur séu gagnlegar því þær komi á breytingum sem annars væri erfitt að koma í gegn. Það sem Evrópusambandið hefur gert á þeim 60 árum sem það hefur verið til er að bæta innviði veikari ríkja. Einn af kostum þess fyrir Ísland að vera í EES er að það veitir okkur aðhald, við getum ekki hegðað okkur eins og okkur sýnist, það dregur úr spillingu sem gerir samfélagið betra. Og í þriðja lagi eru Þjóðverjar að reyna að fá borgað eins mikið og þeir geta til baka. Og fyrir það fá þeir mesta gagnrýni.“
Kreppa Íslands lítil í samanburði
Jón segir vanda Grikklands margfaldan á við það sem Íslendingar upplifðu árið 2008. „Vandi okkar á Íslandi var auðvitað minni, að mestu leyti vegna þess að við ákváðum að bjarga ekki bönkunum. Við rifum plásturinn mjög hratt af og sögðum ekki einu sinni Alþjóðagjaldeyrissjóðnum frá því hvað við ætluðum að gera fyrr en við vorum búin að því að við skyldum ekki bjarga bönkunum. Þessi spurning um það hvort þeir myndu hjálpa okkur að bjarga bönkunum kom aldrei upp á Íslandi. Sem var ákveðinn kostur því sennilega hefði AG ýtt mjög fast á það að við björguðum bönkunum með þeirra hjálp. Sem hefði getað sett okkur í þau spor sem Grikkland er í núna. Ríkið hefði orðið gjaldþrota og við hefðum þurft neyðarlán aftur og aftur. Á Íslandi gátum við fellt gengið og það hafði ákveðna kosti þegar kreppan reið yfir en ókosturinn er að vextir hér eru hærri en annars staðar og við fáum verðbólguskot með reglulega millibili sem er mjög kostnaðarsamt fyrir Ísland.“
„Annað sem bjargaði málunum á Íslandi er að við fórum inn í kreppuna með ríkissjóð nánast skuldlausan, ólíkt Grikklandi. Og þess vegna gátum við gert alla þá hluti sem við gerðum. Við vorum með fjárlagahalla upp á 15-20% af landsframleiðslu fyrsta árið eftir hrun sem gerði það að verkum að við þurftum ekki að skera niður í heilbrigðisþjónustu. Grikkir eru að skera niður á fullu, við fórum í gegnum erfiðar aðgerðir en við þurftum ekki að segja upp öðrum hverjum starfsmanni í heilbirgðiskerfinu. Aðlögunin á Íslandi var miklu mildari en Grikkir eru að horfast í augu við núna.“
The post Að bjarga Grikklandi eða ekki appeared first on FRÉTTATÍMINN.