Fyrir skemmstu spruttu upp gagnrýnisraddir og andstyggðarumræða á netinu vegna þess að bandaríska matvælakeðjan Dunkin’ Donuts er að koma sér fyrir á góðum stað á Laugaveginum. Ekki eru allir sáttir og margir hverjir telja endalok miðbæjarins nálgast. Á sama tíma komu fréttir þess efnis að svokallaðar lundabúðir séu að tröllríða reykvískri menningu og fyrirhugað er að planta nokkrum slíkum í húsaþyrpinguna sem hýsir núna skemmtistaðina Gaukinn og Húrra!. Auðvitað er þetta allt saman eitthvað sem má gagnrýna og skiljanlega eru margir ekki hrifnir af þessu. Ég er þó þeirrar skoðunar að þetta sé bara rökrétt þróun, því miður.
Í öllum stórborgum þessa heims eru túristabúðir og skyndibitakeðjur á þeim stöðum sem teljast miðbæir og -borgir. Hvort sem það er á Strikinu í Kaupmannahöfn, Times Square í New York eða Piccadilly Circus í London. Það er bara þróunin um allan heim. Í öllum þessum borgum og flestum öðrum eru íbúar ekkert spenntir fyrir því að hanga á þessum svæðum. Danskurinn er ekki mikið að hanga á Strikinu og New York-búinn fer ekki í Midtown, nema hann nauðsynlega þurfi þess. Í þessum borgum er búið að stækka svæðið. Úthverfin iða af lífi og ekki margir ferðamenn nenna að pæla í því. Ég var í sumarfríi um daginn og fór í göngutúr um Hallærisplanið, Fógetagarðinn og Kvosina með föður mínum og allir sem urðu á vegi okkar voru útlendingar. Ég hugsaði með sjálfum mér að það fer að koma að því að við Íslendingar höfum ekkert í miðbæinn að sækja. Pabbi var á sama máli og hann stendur á áttræðu. Hvað eigum við að gera? Það sem ég legg til er að við stækkum þessa borg. Hættum að einblína á miðbæinn okkar fagra og færum okkur og okkar menningu á fleiri staði. Vissulega er það byrjað að gerast. Á grandanum er skemmtileg starfsemi, í Laugalæknum eru gourmet-verslanir og miðbærinn í Hafnarfirði er kósý.
Ferðamannaiðnaðurinn er tvíeggjað sverð. Við fögnum því að hingað komi fólk frá öllum heimsálfum sem dáist að því sem við eigum, bæði í bæjum og í náttúrunni. En með auknum ferðamannastraumi koma ýmsir hlutir sem við hrífumst ekki af. Lundabúðir, alþjóðlegar keðjur og hótel. Vissulega má setja spurningarmerki við staðsetningu allra þessara fyrirtækja. Hótelin öll á sama blettinum nánast og lundabúðirnar hver við hlið annarrar. Þetta er vegna þess að við hugsum alltaf um Reykjavík sem 101. Ef farið er til Berlínar eða Parísar þá er ekki mikið um 101. þar eru 105, 104, 108 og jafnvel 200! Af hverju hugsum við ekki út fyrir 101? Hvað ef það væri einhver geggjaður bar í Álfheimunum og góður veitingastaður í Seljahverfinu? Gætum við ekki alveg hangið þar og breitt aðeins úr okkur? Það finnst mér. Við þurfum ekkert að vera alltaf í miðbænum. Vissulega er góðu plássi á Laugaveginum spanderað undir Dunkin’ Donuts og heppilegra hefði verið að sjá þetta í Kringlunni eða bara í Hamraborg í Kópavogi. En við megum ekki vera eins og einhverjir kverúlantar í afskekktri sveit.Um leið og við erum að reyna að vera heimsborgarar högum við okkur samt eins og einbúar. Fúl á móti og á móti öllu sem gæti skaðað ímynd okkar. Ímynd 101 er bara ekkert svo spes, eiginlega bara kópía af fullt af öðrum hlutum. Að vísu finnst mér Dunkin’ Donuts syndsamlega gott stöff og mun pottþétt smakka þetta rusl. Ekki oft samt.
Það er alveg sama hvað við röflum og tautum. Hótelin og lundabúðirnar munu koma, af því að við sem erum bara venjulegir borgarar höfum ekkert að segja. Við höfum aldrei haft neitt um þetta að segja. Alveg sama hvað óánægjuraddirnar verða háværar og beittar þá er þeim sem eiga peninga og fjárfesta í þessum hlutum alveg sama. Ég segi fokk itt. Förum bara eitthvað annað og gerum það skemmtilegt. Reykjavík er ekki bara eitt póstnúmer. Það er fullt af skemmtilegum hverfum í bænum þar sem hægt er að opna alls konar skemmtilegt. Líka í nágrannasveitarfélögunum. Ef einhver þarna úti er á þeim buxunum að opna litla búð, lítinn veitingastað, eða lítinn bar, og þorir að taka sénsinn á að gera það einhvers staðar annars staðar en í 101, þá mun sá sami aðili njóta góðs af því á næstu 5 árum. Ef við erum dugleg að bakka hann upp og mæta á staðinn. Staðir eins og Frú Lauga og Pulsugerðarmeistarinn í Laugalæk eru lifandi dæmi þess. Ítölsku hjónin sem bjóða upp á ítalskan heimilismat í Laugarásnum líka, sem og Valdís og Búrið á Grandanum. það er meira að segja geggjaður jórdanskur staður í Hamraborg í Kópavogi.
Við eigum það til að vera þröngsýn og oft er það fólkið sem telur sig hvað víðsýnast sem er hvað þröngsýnast! Við erum ekkert sérstakari en aðrar þjóðir. Það er bara svo nýtt fyrir okkur að vera svona fáránlega vinsæl eins og við erum. Við erum líka hugmyndarík og við þurfum bara að þora að framkvæma allar þessar hugmyndir. Kíkjum út fyrir Snorrabrautina, það er fullt að gerast. Fáum okkur græna kortið og tékkum á þessu. Hættum að óttast. Leyfum öllum að vera með. Fögnum alls konar. Dunkin’ Donuts er ekki að fara að drepa okkur. Þeir gera sitt og við gerum hitt.
The post Stækkum þessa borg appeared first on FRÉTTATÍMINN.