Söngvaborg þeirra Siggu Beinteins og Maríu Bjarkar byrjaði sem einhver tilraun árið 2000. Nú 15 árum síðar eru komnir út sex DVD diskar og sá sjöundi á leiðinni. Um helgina verður haldið upp á afmælið með stórglæsilegri dagskrá í Húsdýragarðinum sem fagnar 25 ára afmæli á þessu ári. Sigga Beinteins segir þetta hafa verið skemmtileg 15 ár og magnað að í dag séu fyrstu áhorfendurnir fullorðið fólk nánast.
„Söngvaborg er 15 ára og samt eldist maður ekki neitt,“ segir Sigga Beinteins sem byrjaði á Söngvaborg ásamt Maríu Björk árið 2000. „Maður er alltaf á sama aldri en tíminn líður bara svo hratt. Krakkarnir sem hlustuðu og tóku þátt fyrst eru orðin fullorðið fólk,“ segir hún. „Við ætlum einmitt að fá nokkur af þeim á sjöunda diskinn sem kemur út í haust. Það eru nefnilega krakkar sem tóku þátt í byrjun sem eru enn að syngja,“ segir Sigga. „Við greinilega smituðum þau af áhuganum. Okkur grunaði aldrei að þetta yrðu fimmtán ár eða meira þegar við byrjuðum. Við hugsuðum bara eina plötu í einu,“ segir hún. „Nú erum við búnar að gera sex borgir, nánast annaðhvert ár, sem er alveg ótrúlegt,“ segir hún. „Þetta er til á nánast hverju heimili og við hittum oft foreldra sem segjast vera komnir með nóg af okkur,“ segir hún og hlær. „En börnin þeirra elska þetta sem betur fer og allir foreldrar eru líka þakklátir fyrir okkur þar sem við höfum leyst af barnapíurnar. Börnin horfa aftur og aftur. Það er sama sagan með mín börn, þau horfa á þetta allt saman og oft, svo maður hefur gert eitthvað rétt,“ segir Sigga. „Sjöunda borgin kemur í haust og við erum að vinna hana núna og svo var að koma út geisladiskur núna með öllum bestu lögunum úr myndunum. Diskur sem krakkarnir geta hlustað á í sumarfríinu,“ segir hún. „Tókum bara bestu lögin sem krakkarnir elska og settum á disk. Á laugardaginn verður allsherjar afmælishátíð í Húsdýragarðinum og það er skemmtileg tilviljun að garðurinn er að halda upp á 25 ára afmæli sitt um þessar mundir líka,“ segir Sigga. „Það verður dagskrá um allan garð frá kl 10 um morguninn og til lokunar. Dagskráin okkar byrjar svo á stóra sviðinu kl 14.00,“ segir hún. „Með okkur verða allir sem hafa verið með okkur í Söngvaborginni. Masi, Lóa ókurteisa, Subbi sjóræningi og meira að segja Georg sem var með okkur einu sinni, þau verða öll þarna. Svo verður hún Alda Dís úr Ísland Got Talent, BMX Bros og fullt af ungum og efnilegum söngvurum sem verða með okkur á næsta diski. Dagskráin er um allan garð frá opnun til lokunar. Það eru m.a hestateymingar og kanínuklapp og alls kyns uppákomur svo það verður mikið um að vera á laugardaginn,“ segir Sigga Beinteins.
The post Tíminn líður bara svo hratt appeared first on FRÉTTATÍMINN.