Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Sjálfstæðisflokkur leitar nýrra tíma

$
0
0

Eftir kosningarnar fögnuðu Sjálfstæðismenn sigri. Það var ekki aðeins svo að útkoman var mun betri en skoðanakannanir höfðu bent til heldur tókst Sjálfstæðisflokknum að auka fylgi sitt lítillega, fór úr 26,7 prósentum í 29 prósent. Það sem gerði sigurinn sætari var að næsti flokkur, Vinstri græn, hlaut aðeins 15,9 prósent, næstum helmingi minna fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn. Vegna galla kosningakerfisins ýktist sigurinn síðan þegar kom að útdeilingu þingsæta. Sjálfstæðismenn fengu þriðjung þingsæta, 21 þingmann; meira en tvisvar sinnum meira en næsti flokkur.

Það lá því ljóst fyrir að þrátt fyrir að ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hafi fallið með miklum skelli í kosningunum að erfitt var fyrir forsetann að sniðganga Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, og fela einhverjum öðrum stjórnarmyndunarumboð. Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði tapað fylgi og ef stjórnarandstaðan hefði náð meirihlutafylgi hefði verið eðlilegast að fela stærsta stjórnarandstöðuflokknum stjórnarmyndunarumboðið. En það var ekki niðurstaða kosninganna. Því var Bjarna Benediktssyni falið stjórnarmyndunarumboðið þótt ríkisstjórn hans og Sigurður Inga Jóhannssonar hafi kolfallið í kosningunum.

Hálft skref til frjálslyndis
Það var erfitt fyrir Bjarna að vinna úr þessari stöðu. Hann hafði fengið ágæta kosningu en þjóðin hafði hafnað ríkisstjórn hans rækilega. Sama má segja um forystufólk annarra flokka. Allir lýstu því yfir að þeirra flokkar myndu ekki taka þátt í að framlengja líf þeirrar ríkisstjórnar sem hafði hrökklast frá og kjósendur afgerandi hafnað.

Eftir nokkrar tafir við almennt spjall lét Bjarni loks á það reyna hvort takast mætti að koma saman ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, stjórn með minnsta mögulegan meirihluta. Hann mætti með yngri deild Sjálfstæðisflokksins, fólk sem er honum handgengið, en skildi eftir fyrrum ráðherra og áhrifamenn á þingi. Það var engu líkara en að Bjarni ætlaði að sveigja flokkinn sinn í frjálslyndisátt, frá þeirri sérhagsmunagæslu og íhaldssemi sem flokkurinn hafði ratað inn í á Davíðsárunum.

En eftir nokkurra daga samræður blés Bjarni stjórnarmyndunina af. Hann treysti sér ekki til að nálgast Viðreisn og Bjarta framtíð í kvóta- og Evrópumálum.

Þegar Davíð Oddsson mætti Jóni Baldvin Hannibalssyni um vorið 1991 eftir að hafa háð kosningabaráttu gegn samningaviðræðum um Evrópska efnahagssvæðið þurfti hann ekki að hugsa sig um áður en hann tók U-beygju í málinu til að tryggja sér og flokknum stjórnarsetu.

Annað hvort vildi Bjarni ekki eða gat ekki tekið slíka ákvörðun gagnvart kvóta- og Evrópustefnu Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

sjallagraf

Bjarni sterkur, en ekki nógu
Sjálfstæðisflokkurinn hefur hrörnað á þessari öld. Í fyrstu kosningunum tapaði hann miklu fylgi, féll úr 40,7 prósentum 1999 í 33,7 prósent 2003. Þær kosningar komu í kjölfar ákvörðunar Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar um að setja Ísland á lista yfir viljugar þjóðir vegna innrásar Bandaríkjamanna í Írak. Hvorugur náði sér í raun pólitískt eftir það. Davíð lét forsætisráðuneytið eftir til Halldórs og hætti stuttu síðar í stjórnmálum og Halldór sagði af sér í kjölfar sveitarstjórnarkosninga 2006.

Geir H. Haarde reyndi að færa flokkinn eilítið til, fékk þolanlega kosningu 2007 og kaus þá heldur að efna til stjórnarsamstarfs við Samfylkinga en framlengja líf ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks um enn ein fjögur árin. Samfylkingin sem hafði verið höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins á Davíðsárunum, rann þá saman við Baug, Evrópusambandið og allt sem Davíðsarmurinn skilgreindi sem andstæðinga. Ákvörðun Geirs var harðlega gagnrýnd af þessum hópi. Og þegar Hrunið kom og ríkisstjórnin lyppaðist niður voru margir sem sögðust einmitt hafa spáð þessu; að ríkisstjórnarsamstarf við Samfylkinguna gæti ekki endað vel.

Þegar á reyndi hafði þessi íhaldssami kjarni sigur í flokknum. Bjarni Benediktsson var reyndar kosinn formaður, frambjóðandi þeirra sem vildu færa flokkinn í frjálslyndisátt. En hann átti hins vegar alla tíð erfitt uppdráttar þar sem íhaldssamari armurinn hefur haft tögl og haldir í flokknum. Bjarni hefur því meira og minna framfylgt sömu íhaldsstefnu flokksins og einkenndu Davíðsárin.

Enginn velkist í vafa um að það var fyrst og fremst Bjarni sem bjargaði flokknum í nýliðnum kosningum. Allt kynningarefni flokksins snerist um Bjarna og hann var eini talsmaðurinn sem nokkuð kvað að. Það var Bjarni Benediktsson sem vann sigur í kosningunum, miklu fremur en Sjálfstæðisflokkurinn.

Það er því athyglivert að þrátt fyrir að hafa aldrei haft sterkari stöðu innan flokksins skuli hann ekki treysta sér til að hliðra til einarðri afstöðu íhaldsarmsins í Evrópu- og kvótamálum.

Haldreipið Steingrímur J.
Eftir slit viðræðna varð ljóst að þrátt fyrir ágætan sigur í kosningum var Sjálfstæðisflokkurinn undarlega einangraður í íslenskum stjórnmálum. Frá 1974 hefur flokkurinn verið 24 ár í ríkisstjórn með Framsókn en aðeins 6 ár án Framsóknar. Og öll þau ár leið flokknum illa; í þriggja flokka ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, með markaðssinnuðum Alþýðuflokki Jóns Baldvins og Samfylkingu Ingibjargar Sólrúnar. Þessi sambönd voru stormasöm og reyndu á hagsmunagæslu Sjálfstæðisflokksins. En sú var ekki raunin með Framsókn. Í flestum málum falla stefnur þessara tveggja flokka nú saman.

Þar sem enginn flokkur vill í dag framlengja enn ríkisstjórnarsamstarf þessara tveggja helstu kerfisflokka landsins horfa íhaldsmenn í Sjálfstæðisflokknum fyrst og fremst til landsbyggðar- og íhaldsarms Vinstri grænna. Eins og Ólafur Ragnar varð skyndilega hinn náttúrulegi samstarfsmaður íhaldsmanna Sjálfstæðisflokksins virðist Steingrímur J. Sigfússon vera orðin þeirra helsta von um áframhaldandi valdasetu.

Þannig er komið fyrir Sjálfstæðisflokknum. Hann er stór en einangraður og þarf að biðla til Steingríms J. um völd.

Gunnar Smári Egilsson
gunnarsmari@frettatiminn.is


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652