Um hádegisbil 12 október var hringt á dyrabjölluna hjá Goran Renato í Hlíðunum. Hann hleypti tveim óeinkennisklæddum lögreglumönnum inn og mennirnir tjáðu honum að honum yrði fylgt úr landi þá um nóttina. Þetta kom Goran í opna skjöldu en hann kom til Íslands í mars. Goran er Kúrdi og talar fimm tungumál. Hann var tekin í herinn þar sem hann átti að starfa sem túlkur en var í staðinn sendur á vígvöllinn þar sem hann horfði upp á vini sína drepna. „Ég vissi að ég myndi deyja þarna og enginn myndi hirða um það,“ sagði Goran við Fréttatímann kvöldið áður en hann var sendur úr landi.
Blaðakona Fréttatímans heyrði samtal Gorans við lögreglumanninn sem fygldi honum úr landi þann 13. októrber. Lögreglumaðurinn hringdi í Goran um tíu leytið um kvöldið í því skyni að ráða Goran frá því að beina athygli að brottför sinni, það myndi eyðileggja fyrir honum, sérstaklega ef málið yrði tekið upp aftur. Goran var svo gefið undir fótinn með að hann gæti tekið málið upp síðar en hann ætti alls ekki að beina fólki að heimili sínu. Lögreglumaðurinn endaði allar setningar á „my friend·“ „We will come for you at 4 o´clock, my friend.“ Lögreglumaðurinn sem Goran sagði vera af tyrkneskum ættum endaði samtalið á að segja „salaam“ og Goran notaði sömu arabísku kveðju.
Goran sem vonaði bara að þetta væri allt slæmur draumur hafði engin áform um að sýna mótþróa. Um nóttina var hann færður úr landi í lögreglufylgd til Hamborgar og eftir það spyrst ekkert til hans í 25 daga. Vinir og Fréttatíminn reyndu árangurslaust að ná tali af honum.
Goran hafði samband við Fréttatímann fyrr í vikunni og greindi frá því að við komuna til Hamborgar hafi lögreglumaðurinn íslenski afhent Goran þýskum yfirvöldum og hafi honum verið ekið beint í gæsluvarðhald eins og glæpamaður. Síminn var tekin af honum og hann sat í klefa í 25 daga þangað til að hann var færður fyrir dóm. Dómarinn bað hann þá afsökunar á þeirri meðferð sem hann fékk við komu landsins en skýringin á henni var að lögreglumaðurinn sem fylgdi Goran frá Íslandi hafi talið hann vera hættulegan liðsmann ISIS. Goran dvelur nú í flóttamannabúðum í Hamborg en hans heitasta ósk er að koma heim til Íslands.
Alda Lóa Leifsdóttir
aldaloa@frettatiminn.is