Ekki fást svör við því hvort beðið verði með brottvísanir barnafjölskyldna, sem þegar hefur verið ákveðið að vísa úr landi, eins og fjölskyldu þeirra Fadilu og Saad og barna þeirra Jónínu og Hanif, en hætt var við brottflutning þeirra aðfaranótt miðvikudags eftir að heimilisfaðirinn lagði á flótta. Málið hefur vakið mikla athygli en Fréttatíminn var á staðnum auk fólks sem vildi styðja við bakið á fjölskyldunni. Rúmlega fjögur þúsund hafa skrifað undir undirskriftasöfnun þar sem farið er fram á að þau fái að vera áfram í landinu.
Innanríkisráðuneytið bendir á að brottvísun kunni að vera óheimil ef hætt sé við að börn geti orðið fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Mat á slíku sé í höndum kærunefndar útlendingamála og Útlendingastofnunar. Skoða beri hvort hætta sé á aðskilnaði fjölskyldunnar og hversu erfitt yrði fyrir hana að setjast að annars staðar. Þá sé mikilvægt að skoða málin með tilliti til hagsmuna barnsins, aldurs þess og mögulegra erfiðleika sem upp geti komið ef til brottflutnings kemur. þká