Nýverið kom út nýr geisladiskur með harmonikkuleikurunum Hildi Petru Friðriksdóttur og Vigdísi Jónsdóttur. Diskurinn sem nefnist Dragspilsdraumar inniheldur 15 lög, bæði danslög fyrir harmonikkur og einnig falleg dægurlög útsett fyrir harmonikkur. Tvö lög á disknum eru eftir Hildi Petru og Vigdísi. Þær hafa spilað saman á harmonikku í nokkur ár, en þetta er í fyrsta sinn sem tvær konur gefa út harmonikkudisk. Þær eru einnig hluti af hljómsveitinni „Við og við“ sem spilar með þeim á þessum diski auk fleiri hljóðfæraleikara. Vigdís segist hafa byrjað að spila á harmonikku fyrir 10 árum síðan.
„Hildur hefur spilað á harmonikku síðan hún var krakki,“ segir Vigdís. „Þetta byrjaði hjá mér þegar maðurinn minn gaf mér harmonikku í fertugsafmælisgjöf, ég verð fimmtug í desember svo þetta eru að verða tíu ár,“ segir hún. „Fyrst um sinn spilaði ég bara fyrir stofuvegginn og kunni lítið, svo hefur þetta komið hjá mér og ég kynntist Hildi fyrir þremur eða fjórum árum síðan. Við byrjuðum að spila saman og skemmtum okkur vel við það,“ segir Vigdís. „Ég kunni ekki mikið fyrir, ég spilaði smá sem krakki á píanó og vissi bara rétt svo hvar nóturnar voru og ég hef þurft að hafa fyrir því að spila á nikkuna, en ég er svo heilluð af því,“ segir hún. „Ég fæ mjög mikið út úr því að spila með henni Hildi og við höfum verið að spila saman um allt land. Vandinn er sá að Hildur býr fyrir norðan og ég í bænum en við hittumst og tökum æfingahelgar og svo fer ég norður og spila með henni,“ segir Vigdís sem segir tækifærin fyrir harmonikkuleik vera fleiri á landsbyggðinni. „Auðvitað er harmonikkulíf á höfuðborgarsvæðinu og ég vil ekki gera lítið úr því, en það hefur einhvernveginn verið meira um það að við spilum á landsbyggðinni,“ segir hún. „Það tengist því líka að Hildur býr úti á landi og hún er töluvert þekktari spilari en ég er.“
Diskurinn inniheldur 15 lög, bæði danslög fyrir harmonikkur og einnig falleg dægurlög útsett fyrir harmonikkur. Tvö lög á disknum eru eftir Hildi Petru og Vigdísi og hún gæti vel hugsað sér að semja meira. „Ég fór í FÍH og lærði smá tónfræði og tónheyrn og gat valið um það að skila ritgerð eða semja lag. Ég færi létt með að skrifa ritgerð svo mér fannst lagasmíðin meira krefjandi,“ segir hún. „Nikkan ýtti mér bara út í það og mér finnst það mjög gaman og reyni að baksa við þetta áfram. Þetta er mikið ævintýri og það er mjög gaman hjá okkur,“ segir Vigdís Jónsdóttir harmonikkuleikari.
The post Skemmtum okkur saman með nikkurnar appeared first on FRÉTTATÍMINN.