Tíminn frá því tilkynning er send um týnt barn og þar til hún berst útivinnandi lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu er aðeins 20 mínútur að meðaltali, en var áður 8 klukkutímar. Guðmundur Fylkisson aðalvarðstjóri segir gríðarlega mikilvægt að finna börn fyrir nóttina. Að meðaltali leitar lögreglan að fleiri týndum börnum í hverjum mánuði í ár en í fyrra, en Guðmundur telur ástæðuna þá að foreldrar hafi nú meiri trú á að lögreglan taki tilkynningar þeirra alvarlega.
Tíminn frá því tilkynning er sent um týnt barn og þar til hún berst útivinnandi lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu er aðeins 20 mínútur að meðaltali, en var áður 8 klukkutímar. „Það skiptir miklu að tilkynningar um týnd börn berist útivinnandi lögreglumönnum sem allra fyrst til að sem mestar líkur séu á því að við finnum börnin fyrir nóttina,“ segir Guðmundur Fylkisson, yfirvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. „Nú finnum þau oft fyrri hluta kvölds í staðinn fyrir að missa þau inn í hús yfir nóttina og styttum þá þann tíma sem þau eru í neyslu eða slíku,“ segir hann.

Guðmundur leiðir sérstakt átak lögreglunnar til að koma í veg fyrir að óæskilegir einstaklingar hýsi börn og ungmenni undir lögaldri.
Sérstakt 12 mánaða átaksverkefni lögreglunnar til að koma í veg fyrir að óæskilegir einstaklingar hýsi börn og ungmenni undir lögaldri hófst í nóvember og Guðmundur hefur tekið þátt í verkefninu síðan. „Við settum okkur að ná þessum tíma niður í eina klukkustund en í vor þegar við höfðum aðeins náð tímanum niður í tvær klukkustundir settum við okkur í samband við ríkislögreglustjóra og fjarskiptadeild hans hefur aðstoðað okkur síðan við að koma tilkynningunum til skila,“ segir Guðmundur. „Áður voru tilkynningar sendar út í tölvupósti og ef mikið var að gera sáu lögreglumenn þær ekki fyrr en þeir komu aftur í hús að lokinni vakt. Í lok maí byrjaði fjarskiptamiðstöðin að starfa með okkur. Hún vaktar síma og tölvukerfi allan sólarhringinn og það er vegna þessa samstarfs sem tilkynningarnar berast svona fljótt. Nú sjá lögreglumenn sem eru úti jafnvel börnin mjög fljótt ef þau eru á ferli. Þetta er gríðarlega jákvæð þróun,“ segir hann.
Sú breyting hefur einnig átt sér stað frá fyrra ári að lögreglan leitar nú að fleiri börnum, að meðaltali 17 á mánuði það sem af er þessu ári en að jafnaði 10 börnum í hverjum mánuði í fyrra. Í júlímánuði var leitað að 14 börnum, 8 stelpum og 6 strákum. „Ég vil trúa því að þetta sé ekki vegna þess að vandinn sé að aukast heldur hafi foreldrar og forráðamenn nú meiri trú á því að við tökum þessi mál alvarlega og leiti því aðstoðar lögreglu fyrr. Nú líður sjaldnast meira en sólarhringur áður en haft er samband við okkur vegna týndra barna en áður liðu oft nokkrir dagar,“ segir Guðmundur.
Þegar átaksverkefnið hófst var tekin sú ákvörðun að lýsa ekki eftir týndum börnum í fjölmiðlum nema í ítrustu neyð og frá nóvember hefur aðeins verið auglýst tvisvar. „Þegar búið er að birta nafn og mynd af týndu barni í fjölmiðlum opnast flóðgáttir af ýmiss konar áreiti í gegnum rafræna heiminn og við reynum því að nota aðrar leiðir,“ segir hann.
Algengast er að börn fari heim þegar þau finnast en annars fara þau ýmist á Neyðarvistum Stuðla eða á meðferðarheimili ef þau hafa strokið af slíku heimili. „Á árunum 2013-2014 fór að jafnaði um helmingur barna á Stuðla en nú er það aðeins um fjórðungur. Við teljum það líka vera til marks um að gripið sé inn í fyrr en áður og börnin sem leitað er það því í nógu góðu ástandi til að fara beint aftur heim,“ segir hann.
The post Leit að týndum börnum: 20 mínútur í stað 8 klukkutíma appeared first on FRÉTTATÍMINN.