Ákvörðun um hvort lögbann verði sett á vefsíðuna tekjur.is verður ekki tekin í dag. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu segir að fara þurfi yfir mikinn bunka af skjölum í málinu og að engin ákvörðun liggi fyrir. Ruv.is greindi fyrst frá.
Ingvar Smári Birgisson, lögfræðingur og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, krafðist í gær lögbanns á tekjur.is eins og sagt var frá hér á Fréttatímanum.
En á vefnum er hægt er að fletta upp tekjum og skattaupplýsingum allra Íslendinga 18 ára og eldri, gegn greiðslu áskriftargjalds og er Viskubrunnur ehf. rekstaraðili síðunnar.
Athygli vekur að ekkert er minnst á í skilmálum á vefnum tekjur.is um að fólk fái endurgreiðslu komi til þess að lögbann verði sett á og engar tilkynnigar hafa komið fram á vefsíðunni um það atriði.
En í 12. grein um skilmála segir að ,,Eftir að skráningar- eða áskriftargjald hefur verið greitt er ekki hægt að skila þjónustunni, né krefjast endurgreiðslu.” Rétt er hjá þeim sem að hyggjast kaupa þjónustuna að kynna sér málið frekar en að sjálfsögðu ættu forsvarsmenn vefsins að upplýsa um málið á vef sínum.
12. grein í skilmálum: Greiðslur, afhending og skil
Notandi greiðir skráningargjald fyrir aðganginn sem er afhentur á vefsvæði tekjur.is. Með skráningargjaldi fylgir aðgangur að vefsvæðinu í einn mánuð. Í framhaldi er greitt áskriftargjald fyrir hvern mánuð. Notandi hefur aðgang svo lengi sem áskriftargjald er greitt. Áskrift endurnýjast sjálfkrafa sé henni ekki sagt upp.
Eftir að skráningar- eða áskriftargjald hefur verið greitt er ekki hægt að skila þjónustunni, né krefjast endurgreiðslu. Hægt er að ganga frá greiðslu á vefsvæðinu tekjur.is með greiðslukortum.