Við erum búnir að finna ýmislegt sem ég var alveg búinn að gleyma. Ég veit ekki hvort ég get kallað það allt gullmola en sumt er óborganlegt þegar maður sér það aftur,“ segir Ásgeir Eyþórsson fjölmiðlamaður.
Ásgeir vinnur nú að fimm þátta sjónvarpsseríu um 30 ára sögu Íslands í Eurovision ásamt Gunnlaugi Jónssyni félaga sínum, en saman hafa þeir gert feiknavinsæla útvarpsþætti um tónlistarsögu Íslands, Árið er.

Þáttunum svipar til útvarpsþáttanna og fara í loftið á RÚV í janúar. „Þetta verður í anda Árið er en nú bætist myndefnið við þannig að það er eftir töluvert meiru að slægjast,“ segir Ásgeir.
Vinna við þættina er hafin og þeir Gunnlaugur eru nú að klára fyrsta þáttinn. „Við tökum þetta í tímaröð en það er mismunandi hvað hvert ár fær mikið pláss. Stundum var engin undankeppni hér og stundum vorum við ekki með.“
Hvernig er þetta í samanburði við vinnuna við Árið er?
„Þetta er náttúrlega töluvert þrengra viðfangsefni. En það er skemmtilegt að fletta sig í gegnum þetta, sérstaklega eldra efnið. Það eldist auðvelt misvel, bæði tónlistin og tískan. Það verður alla vega nóg af vindvélum og flottum hárgreiðslum í þáttunum.“
Eurovision hefur alltaf notið mikilla vinsælda hér á landi. „Kannski sérstaklega fyrstu árin. Þá sátu fyrirmenni úti í sal á keppninni og það var mikið lagt í auglýsingar fyrir keppnina. Við kíkjum að sjálfsögðu á gamlar auglýsingar.“
The post Nóg af vindvélum og flottum hárgreiðslum appeared first on Fréttatíminn.