Bandaríska tónskáldið og leikstjórinn John Carpenter kemur fram á tónleikum á tónlistarhátíðinni ATP á Ásbrú næsta sumar. Þetta verður í fyrsta sinn sem Carpenter flytur tónlist sína opinberlega í eigin persónu. Carpenter kemur til með að leika mörg af sínum þekktustu verkum ásamt lögum af nýju plötunni sinni, Lost Themes, auk nýrra tónverka.
John Carpenter er brautryðjandi þegar kemur að tónlist og kvikmyndum. Hann hefur samið tónlist við eigin kvikmyndir en um leið gert nokkur eftirminnilegustu kvikmyndaskor sem samin hafa verið fyrir spennu- og hryllingsmyndir. Til að mynda myndir á borð við Dark Star (1974), Assault on Precinct 13 (1976), Halloween (1978), The Fog (1980), Escape from New York (1981), Christine (1983), Starman (1984), Big Trouble in Little China (1986), Prince of Darkness (1987) og They Live (1988).
Í febrúar síðastliðnum sendi John Carpenter frá sér sína fyrstu plötu á löngum ferli sem saman stendur af nýjum tónsmíðum og lögum sem ekki eru saman sérstaklega fyrir bíómyndir. Platan Lost Themes, gefin út hjá Sacred Bones Records, hefur fengið einróma lof gagnrýnenda en hún hefur einnig komist inn á vinsældarlista bæði í Bretlandi og í Bandaríkjunum. Lost Themes hljóðritaði John Carpenter með syni sínum Cody Carpenter og Daniel Davies en þeir munu koma fram á tónleikunum á Íslandi ásamt tónskáldinu auk hljómsveitar og tilkomumikillar sviðssetningar.
Miðasala á hátíðina fer fram á Miða.is.
The post John Carpenter á ATP á næsta ári appeared first on Fréttatíminn.