Danska ferðaskrifstofan Spies hefur hleypt af stokkunum nýrri auglýsingaherferð þar sem ungir Danir eru hvattir til að gera mömmur sínar að ömmum.
Fæðingartíðni hefur verið með lægsta móti í Danmörku að undanförnu og í fyrra var Spies með herferðina Do it for Denmark. Þótti hún takast vel og sigurvegarar í keppni sem efnt var til eignuðust barn í janúar síðastliðnum.

Þó herferðin hafi þótt heppnast vel, myndbandið fékk um 8 milljón áhorf á netinu, þykir enn nauðsynlegt að fjölga barnsfæðingum í Danmörku. Nú er sjónum beint að dönskum mæðrum sem fá ekki að njóta þess að verða ömmur, haldi þessi þróun áfram. Vill ferðaskrifstofan Spies meina að fólk sé ástleitnara á ferðalögum og því eigi foreldrar að bjóða börnum sínum í frí á heitari slóðir – í von um að þar komi barnabörnin undir.
Nýja herferðin kallast Do it for Mom og er hressileg, að hætti þeirra Dana.
The post Mæður hvetji börn sín til bólfara í sólarlandaferðum appeared first on Fréttatíminn.