Hljómsveitin Árstíðir er nýkomin heim úr mikilli reisu um Bandaríkin til þess að fylgja eftir útkomu hljómplötunnar Hvel sem kom út í vor. Sveitin ferðaðist um tuttugu ríki Bandaríkjanna og hélt 40 tónleika á 42 dögum. Ragnar Ólafsson, einn meðlima Árstíða, segir ýmislegt hafa gengið á í ferðinni en upp úr standi viðtökur tónleikagesta á ferðalaginu. Árstíðir ferðuðust á gömlum skólabíl sem félagar sveitarinnar keyptu til ferðarinnar, en hann gafst upp eftir rúmar þrjár vikur. Árstíðir halda útgáfutónleika á Rósenberg á föstudags- og laugardagskvöld.
Hún dó í Iowa og við fórum bókstaflega á puttanum til Des Moines til þess að ná næstu tónleikum. Það var engin miskunn.
„Móttökurnar voru alveg frábærar hvar sem við spiluðum,“ segir Ragnar Ólafsson, einn meðlima Árstíða. „Ótrúlegt fyrir okkur sem band að túra um Bandaríkin í fyrsta sinn, hvað þá tuttugu ríki, að upplifa það að hafa aðdáendur í hverju ríki fyrir sig,“ segir hann.
„Ferðalagið tók um sex vikur og tónleikarnir voru 40 á 42 dögum og við keyrðum um 18.000 kílómetra. Svo var auðvitað ýmislegt sem gerðist. Rútan okkar gafst upp eftir rúmar þrjár vikur og þá voru góð ráð dýr. Hún dó í Iowa og við fórum bókstaflega á puttanum til Des Moines til þess að ná næstu tónleikum. Það var engin miskunn. Ég beið hjá rútunni á meðan strákarnir náðu í annan bíl, og var staddur inni á miðjum maísakri í góðu veðri og auðvitað samdi ég lag af því tilefni, það var ekki annað hægt,“ segir Ragnar. „Svo komu þeir aftur og voru komnir á lítinn station-bíl og við tókum hljóðfærin úr kassanum og tónleikaskyrtur og brunuðum til Kansas til þess að ná tónleikum. Á meðan var farið og athugað með viðgerð á rútunni, sem á endanum var ekki hægt að taka sénsinn á,“ segir Ragnar. „Við vorum þá á mini-bus seinni partinn af ferðalaginu.“
Viðtökurnar við plötunni Hvel hafa verið mjög góðar um allan heim og nú er komið að útgáfutónleikum á Íslandi. Þeir verða föstudags- og laugardagskvöld á Rósenberg. Ragnar segir þó hljómsveitina Árstíðir alls ekki vera komna í pásu. „Þvert á móti,“ segir hann. „Við erum að klára að vinna að plötu með hollensku söngkonunni Anneke Van Giersbergen sem starfaði á tíunda áratugnum með sveit sem hét The Gathering, og við kynntumst fyrir tveimur árum. Þetta er samstarfsverkefni okkar með henni. Þessi plata er að koma í janúar og við tekur svo tónleikaferðalag með henni. Einnig verðum við eitthvað á flakki sjálfir fyrir áramót,“ svo það er nóg um að vera, segir Ragnar Ólafsson í Árstíðum.
Tónleikar Árstíða á Rósenberg hefjast klukkan 21.30 bæði kvöldin og mun hljómsveitin Hinemoa hita upp.
The post Fjörutíu tónleikar á 42 dögum appeared first on Fréttatíminn.