Hljómsveitin HAM heldur tónleika í Gamla bíói í kvöld, föstudag. Þetta eru fyrstu tónleikar sveitarinnar í höfuðborginni í fjögur ár. Hljómsveitin hefur verið til í á þriðja áratug, með hléum og eru meðlimir hennar áberandi á mörgum sviðum samfélagsins. Handritshöfundurinn Sigurjón Kjartansson og borgarfulltrúinn S. Björn Blöndal snæddu hádegismat saman ásamt blaðamanni og töluðu meðal annars um stjórnmál, vanþroska og metnaðarleysi.
„Ég les það í fréttum að borgin sé svo vond við fatlað fólk,“ segir Sigurjón Kjartansson, söngvari og gítarleikari HAM, er hann situr á spjalli við við S. Björn Blöndal, borgarfulltrúa og bassaleikara HAM, „á meðan við sem búum í Kópavogi þekkjum þetta ekki.“
„Kosturinn er sá að í Kópavogi er greinilega enginn vondur við fatlað fólk. Þá spyr maður hvort það sé ekki góður staður fyrir fatlað fólk,“ segir Björn. „Ég segi að við getum ekki verið eins góð við fatlað fólk og við mundum vilja vera. Vegna þess að við höfum ekki fjármunina til þess og ríkið vill ekki láta okkur fá þá. Þá segi ég ok, ef ríkið telur sig geta gert þetta mikið betur fyrir þetta fjármagn þá er samfélagslega ábyrgt að þessi málaflokkur gangi aftur til ríkisins. Ríkið sjái þá um að þjónusta það fólk sem á þarf að halda. Bæði ódýrar og betur. Við eigum ekki að vera að vasast í þessu ef við eigum ekki að gera það almennilega. Reykjavík þarf milljarð til þess að gera þetta almennilega og ef við fáum hann ekki, þá eigum við ekki að vera að gera þetta.“ En nóg af pólitík.
Kapítalismi ekkert endilega slæmur
„Hljómsveitin HAM er búin að vera til síðan 1988, sem gera 27 ár,“ segir Sigurjón og dæsir. „Ef þú vilt endilega segja að það séu að verða þrjátíu ár síðan, þá gerir þú það.“
„Umræðuefnið innan bandsins hefur samt ekkert breyst neitt rosalega mikið,“ segir Björn. „Þrátt fyrir að menn hafi gert allan fjandann á þessum tíma. Ungir menn vorum við oft að tala um pólitík og slíkt, en við vorum þó ekki reiðir ungir menn. Við erum bara þokkalega meðvitaðir um okkar umhverfi sem hópur og höfum pælt í því. Hver ræður og svona, hver maðurinn, og slíkt. Sigurjón var lengi mjög hægri sinnaður,“ segir Björn og Sigurjón hlær við. „Þú varst á frjálshyggjulínunni,“ segir Björn.
„Já, ég var það,“ segir Sigurjón. „Að vissu leyti hefur það breyst en að öðru leyti ekki,“ segir hann. „Ég er kapítalískur í hugsun. Sem fyrir mér er grunn-element í því að vera skapandi.“
„En þú veist líka að það þarf alltaf ákveðin sósíal element til þess að þetta gangi upp,“ segir Björn. „Kapítalisminn sem stundaður er á Íslandi og víðar er ekki alvöru. Þetta er svona fals-kapítalismi. Hér ertu bara í skjóli opinbers fjármagns, og svo er þetta spurning hvern þú þekkir og slíkt.“
„Í grunninn er ég samt meira til vinstri,“ skýtur Sigurjón inn í.
„Kapítalisimi er ekkert endilega slæmur en það er meðferð hans, sem er ábótavant,“ segir Björn. „Það er samt bein tenging milli frjálshyggju og sköpunar.“
Björn og Sigurjón komu báðir að stofnun Besta flokksins á sínum tíma, þó Sigurjón hafi alltaf verið meira til baka í pólitísku brasi félaga sinna. „Upphaflega ætlaði enginn í pólitík. Þetta var bara hugmynd. Við létum þetta bara eftir Jóni Gnarr að vera með í þessari hugmynd,“ segir Sigurjón. „Við höfum alltaf látið allt eftir honum. Það varð samt engin breyting á okkur í sjálfu sér,“ segir Björn. „Það varð bara einhver að gera þetta.“
„Við vorum að spila upp fyrir okkur í þroska á árum áður. Það má segja að við höfum keypt full stóran frakka, en nú pössum við vel í hann.“
Mikið gæfuspor að „meika“ það ekki
„Það er ekkert sérstakt tilefni til þess að halda tónleika, en það er bara eitthvað í loftinu,“ segir Sigurjón. „Við vorum að spila svolítið í sumar en þá bara á landsbyggðinni. Þá komu ný lög í ljós og við erum að leggja drög að plötu sem kemur út á næsta ári, og þá fannst okkur núna ágætis tímabil að leyfa höfuðborgarbúum að njóta þess sem er í gangi núna. Við höfum ekki haldið tónleika í Reykjavík síðan við héldum útgáfutónleikana fyrir Svik, harmur og dauði sem kom út árið 2011.
Svo er Gamla bíó orðinn svo sniðugur tónleikastaður og okkur langaði að prófa það. Minnir svolítið á Tunglið í gamla daga. Við höfum verið að vinna að efni síðan 2011 og á næsta ári eru fimm ár liðin frá síðustu plötu og það er svona okkar umþóttunartími, mundi ég segja,“ segir Sigurjón.
„Bandið hittist reglulega en það þarf eitthvað að hanga á spýtunni,“ segir Björn. „Við lítum ekki á þetta sem einhvern klúbb. Það þarf að vera einhver áskorun. Listræn áskorun,“ segir hann og þeir hlæja báðir.
„Við gerum nýtt efni eftir ákveðnum hljóðheimi sem við höfum náð utan um og við kunnum ekki að gera það öðruvísi,“ segir Sigurjón. „Við kunnum vel við okkur í þessum hljóðheimi og reynum ekki að þvinga einhverjar breytingar í gegn,“ segir Björn. „En það eiga sér stað breytingar innan þessa ramma. Það er alveg rétt að það er enginn annar að gera þetta svona, og fyrir vikið höfum við ansi stórt svið að athafna okkur á,“ segir hann.
„Fyrir mörgum hljóma öll lögin eins,“ segir Sigurjón. „En það er ekki alveg þannig að okkar mati. Þetta er eitthvað sem við komumst niður á snemma en týndum á tímabili vegna þroskaleysis okkar. Við fórum að reyna að gera ýmislegt annað þegar við vorum yngri. Buffalo Virgin, önnur platan okkar er til dæmis ekki góð plata,“ segir Sigurjón. „Fullt af HAM aðdáendum eru örugglega ekki sammála mér. Það sem mér finnst í dag er það að við erum orðnir nógu gamlir til þess að vera í þessari hljómsveit.“
„Við vorum að spila upp fyrir okkur í þroska á árum áður. Það má segja að við höfum keypt full stóran frakka, en nú pössum við vel í hann,“ segir Björn. „Síðasta plata er okkar besta og heilasta HAM plata,“ segir Sigurjón. „Þá vorum við orðnir nógu þroskaðir.“
„Þessi rammi sem við unnum í þoldi ekkert sérstaklega einhvern unggæðingshátt,“ segir Björn. „Eitthvað sukk og svínarí var fyndið en passaði ekki mjög vel í framkvæmdina á bandinu. Sprellið átti ekkert samleið með þessu. Samt er svo merkilegt að það hefur alltaf verið endurnýjun í þeim hópi sem hlustar á HAM, sem er grunnurinn að því að við höfum eitthvað að gera. Gömlu aðdáendurnir virðast ekki fara heldur og er það þykir okkur vænt um,“ segir Björn.
„Við höfum samt engan sérstakan metnað,“ segir Sigurjón. „En það er alls ekki listrænt. Við sækjumst bara alls ekki eftir heimsfrægð, það yrði það versta.“
„Við reyndum það,“ segir Björn, „það var partur af vanþroska okkar. Að halda að það væri góð hugmynd,“ segir hann. „Það var mikið gæfuspor að við skyldum ekki „meika“ það.“
„Við sækjumst bara alls ekki eftir heimsfrægð, það yrði það versta. Það var mikið gæfuspor að við skyldum ekki „meika“ það.“
Ræða sagnfræði og líkamsástand
„Hópurinn hittist ekki oft nema þegar eitthvað stendur til,“ segir Sigurjón. „Við erum með æfingaaðstöðu en stundum er bara ekkert æft. Það þarf að ræða svo mikið.“
„Það þarf að ræða pólitík, músík, kvikmyndir, sjónvarpsþætti, sagnfræði, fæðusamsetningar og líkamsástand,“ segir Björn. „Bara það sem fólk ræðir um.“
„Sveitin hefur verið í óbreyttri mynd síðan árið 1990,“ segir Sigurjón.
„Nei 1992,“ segir Björn.
„Heyrðu, við unnum Popppunkt út af mér. Ég mundi öll ártöl,“ segir Sigurjón. „Tónskáldið Jóhann Jóhannsson var með okkur frá 1992, en hann hefur ekki verið með okkur síðan 2006, minnir mig. Hann hefur samt aldrei hætt, svo hann er utanáliggjandi meðlimur. Tónleikaprógramið er þrískipt, segir hann. Nýtt stöff, síðasta plata og svo eldra efni,“ segir Sigurjón.
„Við tökum áhættu og tökum lög sem eru enn í mótun á þessum tónleikum,“ segir Björn.
„Þetta nýja efni er í mótun og okkar mótunartími eru þessi fimm ár. Svo þarf bara eina helgi til þess að taka þetta upp,“ segir Sigurjón. „Það á ekki að þurfa lengri tíma.“
Tónleikar HAM verða í Gamla bíói í kvöld, föstudagskvöld. Miðasala er á www.tix.is og mun Lazyblood hita upp. Húsið opnar klukkan 20 og hefjast tónleikarnir klukkutíma síðar.
The post Orðnir nógu gamlir til þess að vera í HAM appeared first on Fréttatíminn.