Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Hvassahraun kemur best út fyrir flugvöll

$
0
0

Hvassahraun, sem er á mörkum Hafnarfjarðar og Voga, „kemur vel út í samanburði við aðra flugvallarkosti þegar litið er til þátta eins og veðurfars, rýmis og hindrana, kostnaðar og umhverfismála. Þá kemur Hvassahraun best út þegar horft er til möguleika flugvallarstæða til að taka við flugumferð eða starfsemi umfram það sem nú er í Vatnsmýri.“

Þetta er meðal niðurstöðu Rögnunefndarinnar sem kynnti niðurstöður sínar í dag. Rögnunefndin er stýrihópur ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group um flugvallakosti á höfuðborgarsvæðinu. Nefndin kynnti skýrslu sína á blaðamannafundi á Kaffi Nauthóli í dag.

Stýrihópurinn telur nauðsynlegt að samkomulag náist um rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri á meðan nauðsynlegur undirbúningur og eftir atvikum framkvæmdir fara fram. Að sama skapi þurfi að eyða óvissu um framtíð æfinga, kennslu- og einkaflugs. Verkefni stýrihópsins var samkvæmt samkomulagi að athuga annarsvegar hvort önnur flugvallarstæði en Vatnsmýri kæmu til greina fyrir rekstur innanlandsflugs á höfuðborgarsvæðinu og hinsvegar að leggja mat á rekstrargrundvöll og möguleg sóknarfæri sem nýr flugvöllur með þróunarmöguleika til framtíðar hefði í för með sér fyrir íbúa, ferðaþjónustu og atvinnulíf. Könnun stýrihópsins beindist að fjórum nýjum flugvallarstæðum. Þau eru Bessastaðanes, Hólmsheiði, Hvassahraun og Löngusker. Þá skoðaði stýrihópurinn einnig breyttar útfærslur á legu flugbrauta í Vatnsmýri. Aflað var margvíslegra gagna sem ekki hefur verið aflað áður, t.a.m. um veðurfar, rými fyrir flugvöll, flugtækni, umhverfismál og stofnkostnað.

Í niðurstöðum hópsins segir m.a.:

„Hólmsheiði kemur lakar út en aðrir kostir að því er varðar nálægð við fjöll, veðurfar og hæð yfir sjávarmáli. Á Bessastaðanesi og Lönguskerjum þarf að taka veigamikla umhverfisþætti með í reikninginn þegar fjallað er um þau svæði sem möguleg flugvallarstæði auk þess sem Löngusker er dýrasti kosturinn. Breyttar útfærslur í Vatnsmýrinni hafa mikil áhrif á umhverfið ásamt því að vera kostnaðarsamar og jafngilda því að byggja nýjan flugvöll. Á Bessastaðanesi er rými til staðar fyrir flugbrautir og þá flugstarfsemi sem nú er í Vatnsmýri en þróunarmöguleikar takmarkaðir og sömu sögu má segja á Lönguskerjum, en þar yrðu flugbrautir ekki lengdar og athafnasvæði stækkað nema með dýrum landfyllingum. Í Hvassahrauni er landrými gott og þróunarmöguleikar heilt yfir betri en á öðrum flugvallarstæðum. Veðurfar í Hvassahrauni er fremur milt en þó gætir áhrifa sjávarlofts á hitafar í mun minna mæli þar en t.d. á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli. Vindhraði er svipaður og á Reykjavíkurflugvelli en suðlægar áttir að vetri algengari í Hvassahrauni. Meðalhviðustuðullinn var svipaður og á Reykjavíkurflugvelli í öllum vindáttum nema norðlægum og norðaustlægum áttum. Nothæfisstuðull í Hvassahrauni er 96,4-97,2% fyrir tvær flugbrautir en 99,6% fyrir þrjár flugbrautir. Flugkvikureikningar benda til að tíðni mikillar ókyrrðar í aðflugi í Hvassahrauni sé ekki vandamál samanborið við aðra flugvallarkosti. Þá eru möguleikar á nákvæmnisaðflugi ágætir í samanburði við önnur flugvallarstæði. Áætlaður stofnkostnaður flugvallar og bygginga sem tækju við allri starfsemi Reykjavíkurflugvallar er um 22 milljarðar króna sem er jafnframt ódýrasti kosturinn.“

Stýrihópurinn telur að nú liggi fyrir nægjanleg gögn til að raunhæfur samanburður á flugvallakostum á höfuðborgarsvæðinu liggi fyrir. Viðbótarrannsóknir þyrftu að koma til í tengslum við fullhönnun og undirbúning hugsanlegra framkvæmda. Jafnframt skiptir miklu máli að viðkomandi sveitarfélag eða sveitarfélög séu reiðubúin að hafa nýjan flugvöll innan sinna vébanda. Formlegt samráð þurfi um þarf að fara fram áður en frekari rannsóknir og undirbúningsvinna haldi áfram. Í tillögum stýrihópsins er lagt til að aðilar samkomulagsins komi sér saman um næstu skref í málinu á grundvelli þeirra gagna sem aflað hefur verið: i) Flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði fullkönnuð næsta vetur með nauðsynlegum rannsóknum ásamt því að kortleggja rekstrarskilyrði mismunandi útfærslu og hönnunar. Náist samstaða um það leggur stýrihópurinn til að stofnað verði sameiginlegt undirbúningsfélag í þessu skyni. ii) Samhliða telur stýrihópurinn nauðsynlegt að samkomulag náist um rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri á meðan nauðsynlegur undirbúningur og eftir atvikum framkvæmdir fara fram. Að sama skapi þarf að eyða óvissu um framtíð æfinga, kennslu- og einkaflugs.

Í stýrihópnum sitja Ragna Árnadóttir formaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fyrir hönd ríkisins, Matthías Sveinbjörnsson fyrir hönd Icelandair og Dagur B. Eggertsson fyrir Reykjavíkurborg. Verkefnisstjóri er Þorsteinn R. Hermannsson hjá Mannviti.

Hér er hægt að kynna sér gögn málsins betur.

The post Hvassahraun kemur best út fyrir flugvöll appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652