Það eru skiptar skoðanir um niðurstöður nýafstaðinna kosninga í Katalóníu. Sjálfstæðissinnar fögnuðu en forsætisráðherra Spánar neitar öllum viðræðum um sjálfstæði. Afstöðubreyting gæti þó orðið eftir kosningar á Spáni í desember.
77% þátttaka í kosningunum
48% atkvæða til flokka fylgjandi sjálfstæði
39% til flokka sem andsnúnir eru sjálfstæði
Katalónskir sjálfsstæðissinnar fögnuðu ákaft þegar niðurstöður kosninganna lágu fyrir síðastliðinn sunnudag en bandalag sjálfsstæðissinna, Junts per Sí, eða Sameinuð um já, með Arthur Más, forseta héraðsins, í fararbroddi, fékk meirihluta atkvæða. Flokkurinn fékk þó ekki hreinan meirihluta þingsæta, 62 sæti af 135, og hefur vikan því farið í viðræður við CUP, Candidatura d’Unidad Popular. CUP, flokkur sem er mun lengra til vinstri en Já-bandalagið en sem einnig berst fyrir sjálfstæði héraðsins, fékk 10 þingsæti og myndi samstarf flokkanna tveggja því tryggja meirihluta sjálfsstæðissinna á þingi.
Þar sem spænska ríkisstjórnin bannaði Katalónum að kjósa um sjálfstæði á síðasta ári og byggði það bann á þeim rökum að samkvæmt stjórnarskránni mættu sjálfstjórnarhéruð ekki kjósa um sjálfstæði, var alltaf vitað að þessar kosningar myndu fyrst og fremst snúast um sjálfstæði frá Spáni. Því sagði Arthur Más, forseti Katalóníu, sigurreifur við kosningaúrslitin á sunnudag að í raun hefði sjálfstæðið og lýðræðið sigrað. En þar sem meirihlutinn er ekki hreinn vilja pólitískir andstæðingar meina að Katalónar hafi í raun hafnað sjálfstæði. Þeirra á meðal er forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, úr PP, Partido Popular. Hann segir niðurstöðu kosninganna klárlega sýna að minnihlutinn hafi kosið flokka sem höfðu sjálfstæði sem aðalmál á sinni stefnuskrá. Hann sé tilbúinn til að hefja viðræður við nýja stjórn Katalóna svo lengi sem þær viðræður séu innan lagalegs ramma. Lagalegur rammi þýðir svo lengi sem sjálfstæði sé ekki inn í myndinni, því eins og áður sagði þá mega héruðin ekki kjósa um sjálfstæði.
Þessu er Arthur Más ekki sammála. Þar sem 48% atkvæða runnu til flokka fylgjandi sjálfstæði ætti það að vera tilefni til alvöru viðræðna, jafnvel um breytingar á stjórnarskrá Spánar. „Við viljum löglegar kosningar um sjálfstæði og það munum við fá,“ sagði hann í sigurræðu sinni á sunnudag. En leiðin er þó ekki greið því flokkarnir tveir sem mynda meirihluta, Junts per sí og CUP, hafa fátt sameiginlegt á stefnuskránni utan sjálfstæðis héraðsins. Þeir hafa þó tilkynnt að innan 18 mánaða muni þeir lýsa yfir sjálfstæði.
Í raun er lítið hægt að segja til um framhaldið fyrr en niðurstöður spænsku kosninganna liggja fyrir í desember. Á meðan Rajoy hefur neitað öllum viðræðum um sjálfstæði í skjóli spænsku stjórnarskrárinnar hefur Pedro Sánchez, formaður stjórnarandstöðunnar, ýjað að því að breyting á stjórnarskrá sé möguleg. Að sama skapi hefur Pablo Iglesias, formaður Podemos, nýs stjórnmálaafls með ný andlit sem vilja gjörbreyta spænskri pólitík, sagt að þó hann vilji ekki missa Katalóníu frá Spáni, þá sé það alltaf vilji fólksins sem verði að ráða því.
Spænskir fréttaskýrendur hafa bent á að þó meirihluti katalónskra kjósenda kjósi aðskilnaðarsinna, þá sé það líka ein leið til að gefa spænsku ríkisstjórninni spark í rassinn með einlægri kveðju um að hlustað verði á óskir meirihluta héraðsins sem vill ekki endilega aðskilnað, heldur fyrst og fremst að hlustað sé á kröfur um breytingar. Breytingar sem snúast fyrst og fremst um skattlagningar en þjóðarframleiðsla héraðsins eru um 20% af þeirri spænsku og um 8% þeirra tekna renna beint til Spánar, sem er mun hærra en önnur héruð greiða.
Hvert sem framhaldið verður er nokkuð ljóst að spænska stjórnin getur ekki horft fram hjá því að meirihluti katalónska þingsins vill aðskilnað og líkt og fréttaskýrendur hafa bent á er nauðsynlegt að koma til móts við þær óskir á einhvern hátt, en ekki loka á niðurstöðuna og skýla sér á bak við gamla stjórnarskrá sem engin lög segja að megi ekki breyta.
Vissir þú þetta um Katalóníu?
-Katalónía er sjálfstjórnarhérað á Norðaustur Spáni.
-Katalónska er tungumál en ekki spænsk eða frönsk mállýska. Það var bannað að nota katalónsku í valdatíð Franco, einræðisherra á Spáni. Í dag tala um 10 milljónir katalónsku en hún er opinbert tungumál í Andorra, og annað tungumál í Katalóníu, Valencia og á Majorca, Menorca og Ibiza. Katalónska er ekki viðurkennd sem eitt tungumála Evrópusambandsins.
-Á fimmtándu öldinni var katalónska þjóðin jafn stór þeirri íslensku. Í dag telur hún 7,5 milljónir.
-15,7% þjóðarinnar eru innflytjendur.
-Héraðið er svipað að stærð og Belgía, 32.107 ferkílómetrar.
-Þjóðarframleiðsla Katalóníu er 20% af þeirri spænsku.
-Katalónía er fjórða auðugasta sjálfstjórnarhérað Spánar, á eftir Baskalandi, Navarra og Madríd.
-Nautaat var bannað í Katalóníu árið 2010.
The post 48% Katalóna vilja sjálfstæði appeared first on Fréttatíminn.