David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, er væntanlegur til landsins í lok mánaðarins. Cameron og forsætisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna hafa þekkst boð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um að taka þátt í málþingingu Northern Future Forum dagana 28. og 29. október. Þetta verður í fyrsta sinn á lýðveldistímanum sem forsætisráðherra Bretlands heimsækir Ísland.
Í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu kemur fram að Northern Future Forum sé umræðuvettvangur þjóðanna níu, þar sem þjóðarleiðtogar, fræðimenn og sérfræðingar skiptast á skoðunum um valin mál. Málþingið er nú haldið í fimmta sinn, en áður hafa Bretar, Svíar, Lettar og Finnar boðið heim undir merkjum Northern Future Forum. Í þetta sinn mun umræðan snúast um skapandi atvinnugreinar og nýsköpun í opinberum rekstri.
Samhliða málþinginu munu David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands, funda um samskipti og samstarf landanna.
Heimsókn David Cameron til Íslands markar tímamót, segir í tilkynningunni, því forsætisráðherra Bretlands hefur ekki komið í formlega heimsókn til Íslands frá stofnun lýðveldis hér á landi. Þó má ekki gleyma því að Winston Churchill, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, heimsótti Ísland á hernámstímanum í ágúst 1941 og átti þá fundi með fulltrúum Íslenskra stjórnvalda.
„Northern Future Forum er góður vettvangur til að miðla þekkingu og ræða nýjar hugmyndir. Umræðuefnin í ár eru mjög mikilvæg og ríma vel við áherslur ríkisstjórnarinnar, sem hefur fjárfest mikið í nýsköpun og rannsóknum. Þess sér m.a. stað í framlögum til Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknasjóðs, sem hafa stökkbreyst á undanförnum árum í takt við vilja ríkisstjórnar til að stuðla að aukinni framleiðni í atvinnulífinu. Nordic Future Forum er um margt óformlegri og líflegri umræðuvettvangur en venja er til í alþjóðasamskiptum og ég hlakka mikið til að taka á móti þeim góðu gestum sem hafa staðfest komu sína,” segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í fréttatilkynningu.
The post David Cameron á leið til Íslands appeared first on Fréttatíminn.