Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Eins og sveskjusteinn í sálinni

$
0
0

Sjóveikur í München er skáldævisaga Hallgríms Helgasonar og lýsir níu mánuðum í lífi hans 22 ára gamals. Þá var hann nemi í Listakademíunni í München, aleinn í heiminum og um það bil að fæðast sem listamaður. Hallgrímur segir það hafa tekið mikið á að skrifa þessa bók en hann geri sér grein fyrir því að án þessarar reynslu í München væri hann ekki sá listamaður sem hann er í dag.

 

Það er grenjandi rigning og Reykjavík eins grá og hún getur orðið þegar við Hallgrímur hittumst á kaffihúsi að morgunlagi. Hann er samt bara á sumarjakka en hatturinn og rauði trefillinn eru á sínum stað og lífga eilítið upp á grámann. Hann hefur áður lýst því í viðtölum hvað Reykjavík hafi verið ömurlegur staður í kringum 1980 og að það hafi verið ein af ástæðum þess að hann þráði að komast í almennilega stórborg. Sú dvöl varð ekki eins og hann hafði séð hana fyrir sér, svo vægt sé til orða tekið, og þótt hin sífelldu uppköst í bókinni séu seinni tíma tilbúningur segist hann hafa verið hálfveikur allan þennan vetur í München. En hvað kom til að hann ákvað að bregða út af vana sínum og gera eigið líf að viðfangsefni í sögu?

Ég kom aftur til München haustið 2011 til að kynna Konuna við 1000° sem gekk vel í Þýskalandi. Það var uppselt á upplesturinn í Literaturhaus, viðtal við mig í Süddeutsche, allt í einu var ég orðinn sökksess í borg sem fyrir mig þýddi bara sársauka og þar sem ég hafði átt erfiðasta vetur lífs míns. Þetta var mjög einkennileg blanda af tilfinningum og um kvöldið, uppá hótelherbergi, rann upp fyrir mér að ég var í raun bara hreinlega veikur þennan vetur þarna um árið og nokkrum mínútum síðar fékk ég hugmyndina að þessum uppköstum, svörtu ælunum. Þar með var komin aðferð til að segja þessa sögu, allt í einu gat þessi vetur orðið að skáldsögu, þannig gat ég lyft þessu upp úr því að verða hrein ævisaga. Endurminningasögur geta verið ansi flatar og maður þarf að finna einhverja nýja leið til að gera þær áhugaverðar.“

23441 Hallgrimur Helga 11063

Sjóveikur í München er flokkuð sem skáldævisaga en Hallgrímur segir þó flest sem í henni stendur vera sannleikanum samkvæmt. „Þetta er skáldævisaga, já, þótt megnið af þessu sé alls ekki skáldað. Hlutir eru færðir til og sumir ýktir smávegis, en það eina sem er hreinn skáldskapur eru uppköstin, já, og líka ein settleg sena bakvið gardínu…“

Hvað var svona hræðilegt við þennan vetur? „Það er bara svo vont að vera ungur. En það er nú samt sjúkdómur sem læknast með tímanum, hér er ég samt að lýsa sjúkdómseinkennunum. Óöryggið, feimnin, óvissan, einmanaleikinn. Unglingabólur og almennt volæði. Að vera aleinn í heiminum, bögglast og burðast með sjálfan sig og vita ekkert hver maður er. Í raun eru ælurnar eins og morgunógleði, það má segja að bókin sé lýsing á níu mánaða meðgöngu og síðan fæðist eitthvað að vori…“

Reykjavík líktist kommúnistaríki

Þrátt fyrir að þó nokkrir íslenskir stúdentar væru við nám í München á sama tíma og Hallgrímur segist hann ekki hafa passað inn í þann hóp og hvergi fundið sig í borginni. „Ég passaði bara ekkert inn í München. Á þessum tíma var ég ekki hrifinn af neinu af því sem borgin stendur fyrir, sem sé óperum, heimspeki og bjórdrykkju. Með tímanum hef ég nú lært að meta tvennt af þessu, en geymi heimspekina þar til síðar. Og Íslendingarnir voru þarna ansi heimaríkir og hrokafullir. Nema náttúrulega Ásgeir Sigurvinsson sem var þarna á mála hjá Bayern og kemur aðeins við sögu. Íslenskt námsmannasamfélag í erlendri stórborg getur stundum verið enn andþrengra en hin mestu krummaskuð. En ég var semsagt mjög óviljugur að vera þarna, vildi fara til Berlínar, en listaakademían í München var eini skólinn sem var opinn þegar mér datt í hug að sækja um. Ég var sannfærður um að ég fengi ekki dvalarleyfi í Þýskalandi nema vera í skóla og þannig endaði ég í München.“

Hallgrímur var 22 ára gamall þegar hann hleypti heimdraganum og þrátt fyrir að hafa sumrin áður stundað brúarvinnu vestur á fjörðum og nokkrum sinnum farið í styttri ferðir til útlanda var þetta í fyrsta sinn sem hann fór að heiman til lengri dvalar. „Maður var ansi grænn og blautur á bak við eyrun. Á þeim tíma var miklu meiri munur á Reykjavík og erlendum stórborgum og viðbrigðin meiri þegar út var komið. Í Reykjavík voru þá engir pöbbar, aðeins tveir restaurantar, eitt kaffihús og einn skemmtistaður sem var opinn tvö kvöld í viku, og fyrir framan hann var því alltaf klukkutíma biðröð. Bjórinn var enda bannaður og eina leyfilega útvarpsstöðin lék eingöngu fúgur og serenöður allan daginn. Stemmningin var ansi þung og grá, soldið eins og í ströngu kommúnistaríki. Ofan á þetta bættist svo kaldastríðsmórallinn sem ekki leyfði neina liti, allt var svart eða hvítt, með eða á móti. Samt var nú alltaf gaman á Borginni, þegar maður komst inn.“

Aðalpersóna bókarinnar heitir Ungur Maður og hann er ekki bara á skjön við München heldur eiginlega á skjön við lífið og sjálfan sig. Varstu alltaf þannig? „Nei, ætli ég hafi ekki verið meira normal í menntaskóla. Ég hafði átt góða æsku og það var engin byrði á herðum mér. En undir lok menntaskólans fór að gerjast í manni hvað maður ætlaði að gera í lífinu og þá fóru þessar hræringar í gang. Það datt í mig að skrifa smávegis og svo var myndlistin alltaf að knýja á og þetta fór allt saman að bögglast fyrir manni. Lífið varð allt flóknara og þyngra. Þá kom þessi þörf til að einangra sig frá öllu, fara út í einhverja stórborg og vera þar aleinn, helst ekki tala við nokkurn mann. Það var draumurinn: Að losna við fjölskylduna, vinina, landið, tungumálið, skólana, öll þessi lífsins fög og forskriftir. Losna bara undan öllum höftum og vera frjáls maður. Ætli þetta hafi ekki verið svipað og gamli skáldadraumurinn um klausturvistina, og í raun langar Ungan Mann mest til að láta loka sig inní fangelsi. Einvera er undirstaða allrar sköpunar. Frelsisdrauminn upplifir Ungur fyrstu tvær vikurnar í München en svo byrjar skólinn, Íslendingarnir mæta á svæðið og hann sogast aftur inn í þessar klassísku viðjar.“

23441 Hallgrimur Helgason

Enn einn kallinn með endurminningar

Þegar þú talar um bókina þá segirðu alltaf að þetta sé lýsing á meðgöngu, getur þú sem femínisti notað þá líkingu? Veistu eitthvað hvernig það er að ganga með barn? „Nei, en mér fannst það ágætis leið til að lýsa þessu, en það er best ég hætti því. Svona gamlir femínistar eins og ég þurfa sífellt að vera í endurmenntun og nú er að skrá sig á nýtt námskeið. Ég hafði einmitt smá áhyggjur af því hvað það eru margir karlmenn að skrifa endurminningar sínar núna og hvað þetta er orðin vel mönnuð bókmenntagrein, til dæmis eru tvær eða þrjár bækur á þessari vertíð endurminningabækur miðaldra karla eins og ég er orðinn. En auðvitað heldur fólk áfram að skrifa æviminningar og hver maður á víst bara eina ævi, og hjá sumum er hún karlkyns. En ég varð samt að finna mína leið, reyndi að gera þetta aðeins öðruvísi.“

Listamaðurinn sem þú gekkst með í þessa níu mánuði var ekki rithöfundurinn heldur myndlistarmaðurinn, eða hvað? „Ja, nú er að lesa bókina… Að vera ófæddur listamaður er dálítið eins og að vera inni í skápnum en vita samt ekkert hvað samkynhneigð er. Maður gat ekki útskýrt þetta fyrir neinum, en var að bögglast með þetta einn og það var ekki svo létt.“

Sambúð var frelsisskerðing andskotans

Þú varst alltaf alveg einn, áttir aldrei neinar kærustur og leitaðir ekki einu sinni eftir því. Varstu hræddur við sambönd? „Já. Þegar maður er í svona erfiðu sambandi við sjálfan sig þá er ekkert pláss fyrir þriðju manneskjuna. Það var líka ákveðinn ótti í mér við að binda mig og algjört tabú í mínum augum að fara í sambúð. Það var frelsisskerðing andskotans að fara að búa með konu sem gæti svo orðið ólétt og þá væri lífið bara búið! Ég var mjög hræddur við það.“
Hvaðan hafðirðu þessa fyrirmynd af hinu frjálsa listamannalífi? „Ég var eingyðistrúar og dýrkaði Marcel Duchamp, skrifa mikið um það í bókinni. Þessi franski myndlistamaður sem bjó mest í New York var stóra fyrirmyndin mín, ég lagðist í djúpar stúderingar á honum og bókin fjallar líka um þær. Hann var leiðtogi lífs míns. Svona framan af. Svo fékk ég nóg af honum, list hans er auðvitað mjög vitræn. Ungt fólk tekur gjarnan svona trú á eitthvað, hvort sem það er kommúnismi, anarkismi, dauðarokk eða í þessu tilfelli dadaískur konsept-snillingur með stærðfræðigáfu, og trúir á það eingöngu. Æskan er alltaf soldið fasísk hvað þetta varðar, þarf haldreipi í óreiðukennt líf sitt. En svo kemur að því að maður þroskast, vex upp úr þessu og leggur æskugoðið til hliðar, hættir vera einfaldur aðdáandi og fer að gera sína eigin hluti.“
Þú passaðir ekki inn í þær kreðsur sem þú varst í þarna í München, fílaðir ekki borgina, fannst þig ekki í náminu, hvers vegna fórstu ekki bara eitthvert annað? „Það er góð spurning, en mér bara datt það ekki í hug. Ég er svo skyldurækinn sérðu, var búinn að komast inn í skólann og leigja mér herbergi og það hvarflaði aldrei að mér að gefast upp. Ég hélt þetta út fram á vorið 1982 og þá bara fór ég heim og hóf minn feril upp á eigin spýtur, fór að mála og sýna.”

Óttast viðbrögð barnanna

„The rest is history“ eins og sagt er. Hallgrímur hélt sína fyrstu einkasýningu 1984, flutti til New York og síðan Parísar, var með goðsagnakennda pistla á Rás 2, gaf út sína fyrstu bók árið 1990 og er löngu orðinn einn virtasti rithöfundur og myndlistamaður þjóðarinnar. Var erfitt að takast á við þennan unga týnda mann frá 1981? „Já, það var soldið erfitt, en létt líka, því það er að mörgu leyti auðveldara að skrifa um hluti sem maður hefur sjálfur upplifað, í stað þess að þurfa að skálda allt út í loftið. Erfiðleikarnir sneru þá mest að því hverju bar að sleppa og síðan hinu: Að horfast aftur í augu við þá hluti sem gerðust. Um suma kafla fékk ég þau komment frá yfirlesurum að þeir væru ekki nógu sannfærandi, þá hafði ég ekki þorað að fara alla leið inn í gamlan sársauka. Það var einkum í kafla sem lýsir nauðgun, en það er nú eitt af því sem gerist á lífsleiðinni að manni er nauðgað af ókunnugum manni í erlendri borg. Þetta kom fyrir mig þennan vetur og á endanum varð ég að lýsa því bara í bókinni eins og það gerðist. En ég hafði læst þetta svo djúpt í lífsins skáp að skúffan var nánast ryðguð föst. Sumt í bókinni þurfti ég að ýkja, en þarna þurfti ég að ýkja sjálfan mig til að geta skrifað frekar óýktan kafla. Þetta var orðið eins og sveskjusteinn í sálinni sem var orðinn svo glerharður að ég þurfti virkilega að taka öllu mínu til að ná að leysa hann upp svo hann gæti gengið niður af mér. En allan tímann reyndi ég að skrifa bókina út frá manninum sem ég var 1981, og bætti engum aukahugsunum við frá mér núna, ég kem ekki með neina eftiráspeki, þá hefði bókin líka orðið þúsund síður, sem er kannski full mikið fyrir einn vetur í lífi manns.“

Svo eignaðistu konu og börn og allan pakkann, skemmdi það fyrir listamanninum? „Nei, þá var ég tilbúinn til þess, enda orðinn 44 ára gamall og orðinn hundleiður á barlífi. Ég eignaðist dóttur 1984 en var aldrei uppalandi hennar, hún bjó á Höfn á Hornafirði en ég í útlöndum, þannig að sambandið var stopult. Svo eignaðist ég tvö börn, 2003 og 2005, og fór að lifa þessu venjulega fjölskyldulífi, hef verið að því síðan. Sæll og glaður íbúi Skutlheimsins. Ég hef þó enn þörf fyrir einveru og fer þá einn út á land til að skrifa, kannski í mánuð í senn, en þá rekur maður sig á ansi skemmtilegan hlut: Maður saknar fjölskyldunnar! Að auki er ég svo kominn með hund og snjallsíma sem báðum þarf mikið að sinna, þannig að nú er kominn tími á bókartitilinn “Maðurinn er aldrei einn”.“

Finnst þér þú vera að opinbera sjálfan þig í sjóveikur í München, er þetta einhver hlið á þér sem fólk hefur ekki fengið að sjá? „Já, ég hef allavega aldrei skrifað um eigin ævi áður, svo þetta er nýtt fyrir mér og vonandi fleirum, og líka erfitt á annan hátt en áður, sem og fyrir aðra kannski. Ég reyni allavega að lýsa sjálfum mér eins og ég var og ekki fela neitt, því annað eru jú bara vörusvik í ævisagnabransanum. Það nennir enginn að lesa slíkt. Ég lét nú mína fjölskyldu lesa bókina yfir til öryggis, en ég held að þau hafi ekkert að óttast, enda er þetta ekkert ákæruskjal gegn hörmulegri barnæsku. Vona svo bara að gamlir vinir tjúllist ekki. Ég hef kannski dálitlar áhyggjur af því hvernig yngri börnin taki því ef þau heyra af erfiðum köflum í bókinni, í hverju pabbi þeirra lenti, eða stelist til að lesa þá of fljótt. En ég þarf bara að tala við þau og útskýra þetta varlega fyrir þeim.“

Hvað heldurðu að hefði gerst ef þú hefðir ekki farið til München þarna 1981? „Þá væri ég allt öðruvísi listamaður. Hefði aldrei komist í samband við sjálfan mig og væri enn að berjast um í galleríunum á Coste del Sol með splassí upphleyptar skopmyndir sem væru eins og óáfeng blanda af Halldóri sáluga Péturssyni og Jackson Pollock. Væri svo örugglega hjá heyrnardaufum spænskum sálfræðingi að gráta það líf sem ég hefði getað eignast.“

The post Eins og sveskjusteinn í sálinni appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652