Ragnar Sigurjónsson hafði lengi dreymt um að rækta dúfur þegar hann fékk loks tækifærið fyrir 10 árum síðan. Í dag á hann um hundrað dúfur sem hann elur af mikilli ástríðu auk þess að vera fréttaritari Bréfdúfufélags Íslands. Hann segir bréfdúfuna vera einstaklega gáfaðan og skemmtilegan fugl sem unun sé að ala og þjálfa. Ragnar rekur veisluþjónustu sem býður upp á að dúfum sé sleppt við hin hátíðlegustu tækifæri.
„Áhuginn á dúfum hefur nú bara fylgt mér alla tíð,“ segir Ragnar Sigurjónsson, fréttaritari Bréfdúfufélags Íslands og einn af tuttugu meðlimum félagsins. „Ég var alltaf með dúfur sem krakki og unglingur í Vestmannaeyjum en þegar maður fór svo að búa varð þetta aðeins flóknara. Þá var ekki jafn mikið pláss fyrir dúfurnar, svona eins og gengur og gerist,“ segir Ragnar sem byrjaði aftur af fullum krafti í dúfnarækt fyrir 10 árum síðan og á nú eitt hundrað bréfdúfur. „Ég saknaði þess alltaf mikið að halda dúfur og svo fékk ég tækifærið þegar við hjónin ákváðum að flytja hingað í Gaulverjabæ. Mig hafði lengi langað til að flytja út fyrir borgina og loks var komið tækifæri þegar konan fór að vinna hér sem kennari.“

Skemmtilegt ástarlíf
„Það er svo gaman að ala dúfur því þær gefa mjög mikið af sér. Það er með þær eins og með öll önnur dýr, maður þjálfar þær með mat og það er frekar auðvelt að þjálfa þær, það þarf bara að vita hvert er rétta augnablikið til að umbuna þeim. Svo er virkilega gaman að fylgjast með ástarlífi dúfna því þær verða svo yfir sig ástfangnar. Þær þrífa hvor aðra voðalega vel og svo mata þær hvor aðra til skiptis áður en þær hafa mök,“ segir Ragnar sem hjálpar þeim með makavalið svo útkoman verði sem best. „Ég para þær saman yfir pörunartímabilið eftir því sem mér finnst passa, til að fá sem besta einstaklinga. Það tekur svona 2 daga og þá eru þær orðnar par og halda tryggð við hvor aðra. Eftir 10 daga kemur svo egg og 17 dögum síðar kemur ungi. En svo þarf ég að slíta pörin í sundur að hausti því annars fyllist hér bara allt af ungum. En þær sem gefa mér góða og skemmtilega unga, sem eru fljótir að snúa heim, fá að para sig aftur.“

Bréfdúfufélagið
Bréfdúfur eru gæddar þeim merkilega eiginleika að fljúga alltaf þangað sem þær eru fæddar sé þeim sleppt. Bréfdúfufélag Íslands stendur fyrir hraðakeppni dúfna á hverju sumri en þá er nokkur hundruð merktum dúfum sleppt einhversstaðar á landinu og þær fyrstu heim verða verðlaunadúfur sumarsins. „Mínar dúfur fengu nú engin verðlaun þetta árið en unnu aftur á móti tvö síðustu ár. Besta dúfan mín fór frá Grímsstöðum á Fjöllum og heim til mín, 303 kílómetra í beinni loftlínu, 1478 metra á mínútu, það er 90 kílómetra hraði, sem þýðir að hún var um 3 tíma á leiðinni sem er frábær tími. Þetta er ofsalega skemmtilegt sport. Bréfdúfufélagið hafði legið í dvala um langt skeið þegar við endurvöktum starfsemina fyrir sex árum síðan. Flestir eru af Stór-Reykjavíkursvæðinu og svo er einn og einn á stangli hér við Selfoss. Þetta er dálítið karlasport en það er einn kvenmaður í félaginu og við erum voðalega ánægðir með það.“
Aðspurður segist Ragnar leggja sér dúfur til munns því annað væri synd. „Stundum þarf maður að grisja og þá lætur maður þetta fína kjöt ekki fara til spillis. Ég er ekki hrifinn af því að sóa mat. En þetta er líka hið besta kjöt, mjög gott enda alið á sérfæði, þetta eru engar húsdúfur af götunni.“
Vinsælt að sleppa dúfum í veislum
Auk þess að eiga fjörugt ástarlíf, keppa á mótum og vera aldar á sérfæði þá eru dúfurnar hans Ragnars líka hluti af veisluþjónustu sem er nokkuð nýstárleg hér á landi.
„Ég er með þjónustu þar sem ég lána dúfur sem er svo sleppt í veislum á borð við brúðkaup, skírnir eða jarðarfarir. Þetta er amerískur siður en hann er að vaxa hér á landi, enda afskaplega fallegur siður. Ég kem þá á staðinn í mínu fínasta pússi með fallegar hvítar bréfdúfur sem fólk sleppir við fallega athöfn. Til dæmis er orðið vinsælt í brúðkaupum að brúðguminn sleppi karldúfu og brúðurin sleppi kvendúfu og svo óska brúðhjónin sér. Svo skila dúfurnar sér auðvitað aftur heim til mín. Það er nú alltaf jafn merkilegt því líkt og engin getur útskýrt af hverju krían fer til Afríku og ratar svo til baka þá getur engin útskýrt afhverju bréfdúfur snúa alltaf heim. Það er bara einn af leyndardómum lífsins.“

Staðreyndir um dúfur:
-Karlkyns dúfur geta mjólkað rétt eins og kvenkyns dúfur.
-Dúfur geta orðið 30 ára.
-Bréfdúfur fljúga að jafnaði á 80 til 100 km hraða.
-Vitað er um bréfdúfur sem flogið hafa 1120 km á einum degi.
-Uppruni bréfdúfusportsins er í Belgíu.
-Dúfur hafa flutt skilaboð síðan á tímum Persa.
-Reuters fréttaveitan hóf störf sín með bréfdúfum.
The post Dúfur eru vinsæl nýjung í veislum appeared first on Fréttatíminn.