Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Draumurinn er að vinna með Björk

$
0
0

Í vikunni frumsýndu Reykjavíkurdætur nýtt myndband við lagið Hæpið sem er þeirra nýjasti smellur. Leikstjóri myndbandsins er Antonía Lárusdóttir sem fengist hefur við ljósmyndun í nokkur ár en nýlega tók hún upp á því að leikstýra myndböndum. Hún segir verkefnið hafa verið mjög skemmtilegt og hún ætli sér að gera meira á þessu sviði. Antonía segist hafa lært allt sem hún kann á YouTube og draumurinn sé að vinna með Björk og Jack White.

„Þetta er fyrsta myndbandið sem ég geri í rauninni,“ segir Antonía Lárusdóttir leikstjóri. „Ég hafði gert eitt annað myndband sem hafði aldrei komið út svo þetta er eiginlega það fyrsta,“ segir hún. „Ég tók að vísu upp og klippti myndbandið við lagið Ógeðsleg með Reykjavíkurdætrum, en þetta er það fyrsta sem ég leikstýri líka. Ég hef mikið verið að taka ljósmyndir og er nýhætt að einblína á það og leikstjórnin er eitthvað sem ég vil gera meira af. Ég ætlaði alltaf að vera ljósmyndari og sá áhugi hefur svo bara þróast út í þetta. Ég horfði á tónlistarmyndbönd og ég sá að þetta væri eitthvað sem ég gæti gert. Ég hef ekki áhuga tæknilegri ljósmyndun svo ég hafði ekki áhuga á að taka næsta skref á því sviði,“ segir hún.
„Mér fannst myndbandagerð rökrétt þróun og langaði að gera eitthvað sem ég kunni alls ekki. Ég þekki Sölku Valsdóttur og Jóhönnu Rakel, sem eru í dætrunum, mjög vel. Ég hafði unnið með þessum hópi í einhver tvö ár og farðaði mikið fyrir þær. Þær hafa því alltaf haft mig svolítið með sér í liði og eftir að ég klippti myndbandið við Ógeðsleg á tveimur nóttum höfðu þær samband og spurðu hvort ég væri til í að leikstýra því næsta. Hugmyndin kemur upphaflega frá þeim,“ segir hún.
„Þær vildu gera eitthvað sem tengdist náttfatapartíi og fá allt þetta fræga fólk til að taka þátt í þessu með okkur og gera grín að sjálfum sér í leiðinni. Ég fékk algert listrænt frelsi í framleiðslunni og fékk að gera það sem ég vildi og var mjög ánægð með það. Ég er núna að einblína á sjálfstæð verkefni og er búin að vera með stuttmynd í kollinum. Ég er mjög fljót að vinna svo allar hugmyndir eru fljótar í framleiðslu hjá mér,“ segir hún.
„Ég er búinn að læra allt sem ég kann með því að horfa á myndbönd á YouTube. Þegar ég þurfti að klippa í fyrsta sinn þá „gúgglaði“ ég hvernig það var gert og fór svo bara af stað. Ég læri bara á leiðinni. Draumurinn væri að gera myndbandi fyrir Björk og það kemur að því,“ segir hún. „Hápunktur lífsins væri svo að gera myndband með Jack White. Það mun gerast einn daginn,“ segir Antonía Lárusdóttir leikstjóri.

The post Draumurinn er að vinna með Björk appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652