Íslenskir tónlistarmenn eru búnir að átta sig á því að Gamla bíó er besti tónleikastaður landsins um þessar mundir og keppast nú við að bóka húsið. Að undanförnu hafa bæði útgáfutónleikar Gísla Pálma og Ensímis verið haldnir þar og nóg er fram undan.
Á fimmtudagskvöldið í næstu viku, 2. júlí, hertekur hljómsveitin Samúel Jón Samúelsson Big Band (SJSBB) Gamla bíó. Eins og kunnugt er leikur sveitin frumsamda fönktónlist sem er undir áhrifum frá nígerísku Afróbíti, eþíópískum djassi, brasilískum sambatöktum, bandarísku fönki og stórsveitardjassi – allt undir styrkri stjórn básúnuleikarans Samma. Tónleikarnir hefjast klukkan 21 og miðasala fer fram á Miði.is.
Í vikunni þar á eftir, fimmtudagskvöldið 9. júlí, leiða saman hesta sína hljómsveitirnar Mammút og Samaris. Báðar sveitir munu kynna nýtt efni. Miðasala fer fram á Tix.is.
Laugardagskvöldið 11. júlí verður svo Kaleo með heimkomutónleika en sveitin hefur undanfarna mánuði gert út frá Bandaríkjunum. Miðasala er á Miði.is.
The post Flottir tónleikar í Gamla bíói appeared first on FRÉTTATÍMINN.