„Geysir sem verslun og sem vörumerki er í sífelldri þróun,“ segir Ásdís Eva Ólafsdóttir, sölu- og aðstoðarverslunarstjóri í Geysi. „Það hefur verið löngun til að stækka Geysi í smá tíma og í raun lítum við ekki á búðina sem algjörlega nýja verslun heldur er þetta meira framhald af upprunalega Geysi og þeirri stefnu sem nýja fatalína Geysis er að taka. Hún hefur stækkað mikið síðasta árið og verður opnunin einnig kynning á þessari nýju línu.“ Ný verslun opnar formlega í dag, föstudag, í fallegu húsnæði við Skólavörðustíg 7.
Búðirnar sitt hvoru megin við fangelsið
„Það var eiginlega algjör tilviljun að þetta húsnæði varð fyrir valinu. Það varð skyndilega laust og við urðum að stökkva á það,“ segir Ásdís, aðspurð um hvort það sé ekki einkennilegt að búðirnar séu svona nálægt hvor annarri. „Þetta er glæsilegt hús með frábæra sögu. Við grínumst smá með að það eina sem aðskilur búðirnar sé Hegningarhúsið og þetta séu því búðirnar sitt hvoru megin við fangelsið. Það er eitthvað sjarmerandi við að hafa þær svona nálægt hvor annarri og vonandi verður smá heimilislegt við það að geta stokkið á milli.“

Ný og stærri fatalína frá Geysi
Í nýju versluninni má finna aukið vöruúrval auk þess sem ný fatalína frá Geysi verður frumsýnd. „Við erum að bæta ansi vel í merkjaflóruna okkar og það koma inn ný merki með nýju versluninni. Það verður meiri áhersla á kvenfatnað en það verður alltaf nóg í boði fyrir herrana líka. Verslanirnar eiga að tala ansi mikið saman og við vonumst til að fólki líði eins og það hafi bara farið upp á næstu hæð í Geysi frekar en inn í algjörlega nýja verslun,“ segir Ásdís. Fatalína undir merkjum Geysis hefur verið fáanleg frá árinu 2010. „Alveg frá byrjun hefur verið lögð mikil áhersla á íslensku ullina. Hún er svo stór þáttur í sögu okkar sem Íslendingar en fyrst og fremst er hún frábært hráefni.“
Erna Einarsdóttir hefur verið að hanna fyrir Geysi síðan 2013 en hún er útskrifuð með Mastersgráðu í fatahönnun frá Central Saint Martins í London. „Með tilkomu Ernu kom fram ákveðin löngun að bæði stækka línuna og vinna meira og öðruvísi með ullina sem og önnur gæðaefni. Seinustu tvö ár hafa því farið í mikla tilrauna- og þróunarvinnu og verður afrakstur þessarar vinnu frumsýndur hér á Íslandi í tengslum við opnun nýju verslunarinnar,“ segir Ásdís.

Geysir stefnir auk þess á alþjóðlegan markað. „Í sumar var línan kynnt á sölusýningu í Kaupmannahöfn og voru viðbrögðin frábær og fundum við fyrir miklum áhuga erlendra verslana og söluaðila. Það hefur verið eftirspurn að utan við Geysis fatnaðinum í gegnum tíðina en við vildum ekki fara út fyrr en okkur fannst við vera 100% tilbúin. Í dag erum við tilbúin og getum ekki beðið eftir að fá að kynna línuna fyrir þjóðinni.“




The post Fatalína Geysis tekur nýja stefnu appeared first on Fréttatíminn.