Fjórtán skólalúðrasveitir munu koma fram á sunnudaginn í Hörpu og halda svokallaða maraþon tónleika. Yfirskrift tónleikanna er Óskalög þjóðarinnar og eins og nafnið gefur til kynna er efnisskráin byggð á samnefndum sjónvarpsþáttum sem sýndir voru á RÚV fyrr á árinu. Snorri Heimisson, stjórnandi Skólahljómsveitar Árbæjar og Breiðholts, segir ríflega þrjátíu skólahljómsveitir vera á landinu og margt hafi breyst í starfi lúðrasveita á undanförnum árum og áratugum. Í dag eru marsarnir sjaldan spilaðir, en meiri líkur á því að spila Gangnam Style.
„Hugmyndin að þessu kom eiginlega frá honum Össuri Geirssyni, stjórnanda Skólahljómsveitar Kópavogs, sem situr einmitt með mér í stjórn SÍSL (Samband íslenskra skólalúðrasveita),“ segir Snorri Heimisson, einn skipuleggjanda tónleikanna. „Hann var að horfa á Óskalagaþættina á RÚV og áttaði sig á því að það voru til lúðrasveitaúsetningar af vel flestum lögum sem flutt voru í þáttunum,“ segir hann. „Svo það var ákveðið að bjóða lúðrasveitum landsins að koma saman og spila þessi óskalög þjóðarinnar. Hann athugaði með leyfi frá RÚV sem var auðsótt og okkur fannst góð hugmynd að hafa sama kynni og í þáttunum, svo Jón Ólafsson verður kynnir á þessum tónleikum okkar,“ segir Snorri.
Hljómsveitirnar sem fram koma á tónleikunum koma víða að af landinu, þó flestar séu af höfuðborgarsvæðinu. Hljómsveitir frá Akureyri og Neskaupstað leggja land undir fót til að taka þátt í skemmtuninni ásamt hljómsveitum frá Reykjanesbæ og Árborg. Alls er áætlað að um 500 börn og unglingar láti ljós sitt skína í Norðurljósasal Hörpu. Snorri segir að ríflega 30 skólahljómsveitir séu starfræktar um allt land. „Margar sveitir eru það fjölmennar að þeim er skipt upp, svo hver sveit hefur kannski ekki mörg tækifæri til þess að sýna sig og sanna,“ segir hann.
„Landsmótin eru alltaf viss liður í starfi SÍSL og svo eru tónleikar sem þessir og fleiri sem eru tækifæri til þess að prófa og gera eitthvað annað og meira,“ segir hann. „Það er mjög misjafnt eftir svæðum hvernig gengur að fá krakka til þess að spila í lúðrasveitum. Á mörgum stöðum, eins og hjá mér í Árbæ og Breiðholti og hjá Össuri í Kópavoginum, eru langir biðlistar,“ segir hann. „Auðvitað veltur þetta allt á umfangi starfsins en þetta er mjög svæðisbundið. Á árum áður þótti það pínu hallærislegt að vera í lúðrasveit en ég er ekki viss um að það sé uppi á teningnum í dag. Sveitirnar spila allt aðra músík í dag. Ég er búinn að vera stjórnandi í sjö ár og ég held að ég hafi aldrei látið sveitina spila mars. Eitt af því fyrsta sem ég gerði þegar ég tók við, var að láta þau spila Get Lucky og Gangnam Style. Í dag er svo lítið mál að gera útsetningar af vinsælustu lögunum og líka bara nauðsynlegt fyrir krakkana að spila eitthvað sem þau þekkja,“ segir Snorri Heimisson hjá SÍSL. Tónleikarnir á sunnudaginn standa yfir frá klukkan ellefu að morgni til klukkan sex að kvöldi með nýrri hljómsveit á hálftíma fresti yfir daginn.
The post Lúðrasveitir í dag spila vinsælustu lögin appeared first on Fréttatíminn.