Söngkonan Ágústa Sigrún Ágústsdóttir gaf út sinn fyrsta geisladisk á dögunum. Hún hefur sungið lengi og komið víða við og hefur í gegnum tíðina safnað að sér lögum sem saman eru komin á disknum sem hún nefnir Stjörnubjart. Ágústa söng lengi vel hjá óperunni og starfar í dag sem mannauðsstjóri, markþjálfi og leiðsögumaður. Tónlistin kemur úr öllum áttum en hún hefur lengi haft dálæti á vísnatónlist frá Norðurlöndunum. Ágústa verður með útgáfutónleika í Salnum í Kópavogi laugardaginn 21. nóvember.
„Ég á ekki beint heima á einum stað í tónlistinni. Ég sökkvi mér í margar stefnur og strauma sem klessast svo allar saman á þessum diski.“
„Platan er komin út og í dreifingu. Ég var einmitt að fara með eintök í póstinn í þessum töluðu orðum,“ segir söngkonan Ágústa Sigrún Ágústsdóttir. „Tónlistin á plötunni er samsafn af uppáhalds lögum mínum í gegnum tíðina. Lög sem ég hef sungið þegar ég hef verið að troða upp. Ég hef starfrækt dúett með Sváfni Sigurðarsyni og við höfum dustað rykið af allskonar lögum sem við höfum viljað prófa. Ég misnotaði hann um síðustu jól þegar ég vildi prófa nokkur lög og svo var ég komin með 25 laga safn sem ég vinsaði svo úr á þessa plötu,“ segir hún.
„Ég fékk svo þrjú ný lög til þess að syngja, svo þetta er svona góð blanda af lögum sem eiga sér rætur í sálmum og þjóðlögum og svo er pínulítill sænsku halli á þessari plötu. Ég veit ekki af hverju það er, en sænskar lagasmíðar hafa alltaf átt vel við mig. Meira að segja fékk ég leyfi til þess að nota lagið Like An Angel Passing Through My Room eftir þá Björn og Benny úr ABBA,“ segir hún. „Eftir smá eftirgang fékk ég leyfi til þess að gefa það út með íslenskum texta.
Textarnir á plötunni eru eftir ýmsa höfunda og ég hef dreift álaginu á marga. Hörður Sigurðarson á eina fimm texta á disknum sem hann hefur gert að minni ósk í gegnum tíðina. Valgerður Benediktsdóttir á einn og Hallgrímur H. Helgason á tvo, svo þetta dreifist svolítið. Ég réð mér upptökustjórann Harald V. Sveinbjörnsson eftir síðustu jól og sumarið fór í það að melta og kasta á milli hugmyndum,“ segir hún.
„Í ágúst byrjaði hann að útsetja og svo hófust upptökur í september. Þetta hefur því átt sér rúmt ár í aðdraganda og undirbúning. Ég söng lengi vel við óperuna en þessi tónlist er fjarri þeim söng. Þeir sem hafa hlustað á diskinn áttu kannski ekki von á þessu frá mér. Ég skilgreini röddina mína sem crossover-sópran, sem flæðir því yfir í þjóðlög, popp og sálma. Áhugasviðið málar þetta líka svolítið. Ég á ekki beint heima á einum stað í tónlistinni. Ég sökkvi mér í margar stefnur og strauma sem klessast svo allar saman á þessum diski,“ segir hún. „Þetta er kannski ekki beint fyrsta platan mín því ég kom að útgáfu á plötu árið 2001 sem heitir Hittumst heil. Það var plata með lögum eftir Ágúst Pétursson, föður minn, sem hefði orðið áttræður um það ár, en þetta er mín fyrsta plata í mínu nafni,“ segir Ágústa Sigrún söngkona.
Útgáfutónleikar Ágústu verða í Salnum þann 21. nóvember.
The post Fékk leyfi hjá Björn og Benny appeared first on Fréttatíminn.