„Ég fékk símtal frá konu sem spurði hvort ég þekkti unga stráka í söngnámi sem gætu komið í prufu. Ég benti henni á nokkra en var svo sjálf beðin um að syngja í prufunni,“ segir Harpa. Kjartan Sveinsson, fyrrum meðlimur í Sigur Rós, semur tónlistina í myndinni og eftir að hann heyrði Hörpu syngja Sofðu unga ástin mín var hann sannfærður um að fá hana í myndina. „Hann var reyndar mjög hissa að sjá mig fyrst þar sem hann bjóst bara við 10-14 ára strákum,“ segir Harpa og hlær.
Þrestir, sem er leikstýrt er af Rúnari Rúnarssyni, fjallar um Ara, 16 ára pilt sem er sendur á æskustöðvarnar vestur á fjörðum til að dvelja hjá föður sínum um tíma. Myndin hefur fengið afar góðar viðtökur og sankar að sér verðlaunum um allan heim, en hún var nýlega valin besta leikna myndin í flokki nýrra leikstjóra á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Sao Paulo í Brasilíu.
„Hann var reyndar mjög hissa að sjá mig fyrst þar sem hann bjóst bara við 10-14 ára strákum.“
Söng upphafslag myndarinnar í Ástralíu
„Ég syng þrjú lög í myndinni sem voru öll tekin upp síðasta sumar,“ segir Harpa, sem útskrifaðist úr MR í vor og fór í heimsreisu um Asíu og Ástralíu stuttu eftir að tökum á myndinni lauk. „Ég fékk svo símtal frá Kjartani þegar ég var á Fiji eyjum þar sem hann bað mig um að koma og taka aftur upp eitt lag þar sem hann vildi að það myndi heyrast betur í mér, eða Atla réttara sagt.“
Sú leið var því farin að bóka tíma í stúdíói í Brisbane, en þangað lá leið Hörpu. „Ég mætti í eitthvert pínulítið stúdíó þar sem ég horfði á upphafsatriðið í myndinni og söng inn lagið á meðan ég horfði á Atla hreyfa varirnar í kórnum.“

Sérstök drengjasóprantækni
Við upptökurnar var notuð sérstök aðferð til að gera röddina sem líkasta drengjasópran. „Ég söng öll lögin eins hátt uppi og ég gat, og án víbradós, og röddin var svo lækkuð í eftirvinnslunni, um ferund eða fimmund,“ segir Harpa. Með „víbradói“ á hún við titring í röddinni, en henni fannst erfiðast að þurfa að stjórna röddinni þannig.

Harpa hefur í nægu að snúast þessa dagana en ásamt því að stunda nám í rafmagns- og tölvuverkfræði í Háskóla Íslands er hún að læra söng í Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur. „Ég er einmitt að undirbúa mig fyrir framhaldspróf í söng sem er í næstu viku.“ Hluti af prófinu er að halda tónleika og munu tónleikarnir hennar Hörpu fara fram í Söngskólanum í Reykjavík þann 22. nóvember. „Þar mun ég syngja alls konar lög, en ég held að ég haldi mig við mína eigin tækni, þó svo að drengjaröddin hafi nýst ágætlega í Þröstum.“
The post Tvítugur kvenkyns drengjasópran appeared first on Fréttatíminn.