Guðmundur Pétursson gítarleikari og tónskáld hefur nú sent frá sér nýja plötu sem ber heitið Sensus. Hann hefur áður gefið út plöturnar Ologies árið 2008 og Elabórat árið 2011. Sensus er eins konar lokaþáttur í þessarri þrennu en tekur um leið alveg nýja stefnu tónlistarlega. Áhrifin eru margslungin eins og í fyrri verkum Guðmundar, þótt meiri áhersla sé á stílhreinni hljóðmynd. Tónlistin ferðast úr fönkrokki yfir í elektrónlskar stemningar ásamt óskilgreindri nýbreytni.
„Það má segja sem svo að þetta sé minn stíll. Það er erfitt að finna út hvað maður vill hlusta á, þegar manni finnst maður hafa hlustað á allt,“
„Ologies sem kom út árið 2008 var efni sem ég hafði unnið eftir ákveðna leit að einhverju konsepti sem ég datt niður á við gerð tónlistarinnar,“ segir gítarleikarinn Guðmundur Pétursson. „Mig langaði að treysta alfarið eigin bragðlaukum. Elabórat var svo gerð 2011 undir sömu formerkjum og má segja með einhverjum hætti að Sensus sé að einhverju leyti lokapunkturinn í þessari vinnu,“ segir hann. „Það er allavega tilfinningin sem maður hefur. Þegar ég gerði Ologies þá setti ég mér ákveðnar vinnureglur, þar sem ég eyddi heilli viku í senn að klára hvert lag, og sá hvert það leiddi mig,“ segir Guðmundur. „Þannig datt ég meira og meira niður á ákveðin stíl sem ég hef svo verið að þróa síðan. Það má segja sem svo að þetta sé minn stíll. Það getur verið erfitt að finna út hvað maður vill hlusta á, þegar manni finnst maður hafa hlustað á allt,“ segir hann. „Kannski sest maður þá niður og reynir að búa það til. Áhrifin koma auðvitað úr ýmsum áttum. Allt frá einhverju nýrómantísku syntha-rokki, yfir í amerískan delta-blús. Ásamt einhverjum flækjum úr framúrstefnulegu rokki yfir í dökkan idie-rokk hávaða, í bland við tilfinningaþrunga. Jafnvel húmorískan,“ segir Guðmundur. „Annars veit ég það ekki. Það er varasamt að nefna húmor í þessu samhengi, nema í algeru framhjáhlaupi,“ segir hann. „Ég hef verið að vinna að þessari plötu með hléum í tvö til þrjú ár. Það var meira svona hugmyndavinna, en undanfarið ár hef ég verið að taka hana upp.“ Með Guðmundi á plötunni leika þeir Kristinn Agnarsson á trommur, Samúel J. Samúelsson á básúnu og Haukur Gröndal á saxófóna, flautur og klarínett. „Málið við þessa músík er það að hún er blanda af því að vera rythmísk band músík, yfir í það að vera mjög útsett. Músíkin er hugsuð út frá því að allir partar tali við hvorn annann,“ segir hann. „Oft eru ekki skýr skil á milli tónsmíðarinnar og útsetninganna. Oft eru hugmyndirnar byggðar á ákveðnum hljóðheim og þá þarf að teikna hann upp og úr verður lag. Ég reikna með því að flytja þetta efni á nýju ári en ég er líka að undirbúa tónleika sem ég er að halda með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í mars,“ segir hann. „Það er annar vígvöllur. Ég mun spila tvo konserta með þeim. Annars vegar klassískan kosert eftir Manuel Ponce, og hins vegar verk eftir mig sem er fyrir rafmagnsgítar og sinfóníuhljómsveit. Ég var beðinn um að spila konsert með sveitinni og í hugmyndamótuninni varð það ofan á að ég mundi semja verk af þessu tilefni,“ segir Guðmundur Pétursson gítarleikari.
Sensus fæst í öllum betri hljómplötuverslunum.
The post Varasamt að nefna húmor í þessu samhengi appeared first on Fréttatíminn.