Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Fallegur, heilbrigður og heiðarlegur en glataður kokkur

$
0
0

Þorgrímur Þráinsson rithöfundur tilkynnti í síðustu viku að hann hygðist bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Fréttin vakti mikla athygli og hefur fólk keppst við að tjá skoðun sína á Þorgrími á samfélagsmiðlum síðan. Flestum ber þar saman um að þessi þekkti knattspyrnumaður og elskaði rithöfundur sé gull af manni og við eftirgrennslan reynist sú vera raunin. Helst á fólki að skilja að það eina sem hann geri ekki vel sé að elda mat.

 

Þorgrímur Þráinsson fæddist í Reykjavík og bjó þar fyrstu sjö æviárin. Þá lá leiðin í Kópavoginn í nokkur ár en ellefu ára gamall flutti hann í Ólafsvík og bjó þar til 23 ára aldurs. Hann sótti þó menntaskóla í Reykjavík á vetrum en á sumrin var hann fyrir vestan enda hafði hann vanist því frá því hann var lítill drengur að verja sumrunum hjá afa sínum og ömmu á Staðastað á Snæfellsnesi.
Knattspyrnuferillinn hófst með Víkingi í Ólafsvík og með því liði spilaði Þorgrímur til tvítugs þegar hann gekk til liðs við Val. Hann spilaði stöðu bakvarðar og þótti standa sig vel í vörninni. „Þorgrímur var nokkuð röskur og klókur bakvörður,“ segir einn mótherja hans úr fótboltanum. „Það var erfitt að komast framhjá honum og styrkur hans sem leikmanns lá meira í varnarleiknum en í sóknarleiknum.“ Seinustu árin með Val var Þorgrímur fyrirliði liðsins og það hlutverk hæfði honum vel. „Þorgrímur var leiðtogi á velli, stjórnaði vörninni með félögum sínum. Mikill styrkleiki í hans leik var einnig sá að hann hafði alla tíð góða leikmenn í kringum sig,“ segir sami mótherji, sem reyndar er einnig góður vinur.
Eftir nám við Sorbonneháskóla í París lagði Þorgrímur fyrir sig blaðamennsku, var meðal annars ritstjóri Íþróttablaðsins um hríð og einnig þar þótti hann standa sig vel. „Hann var lunkinn blaðamaður og ég held að sú reynsla hafi ýtt honum út í að fara að skrifa bækur,“ segir samstarfsmaður úr blaðamennskunni. Fyrsta unglingabókin, Með fiðring í tánum, kom út 1989 og síðan hefur Þorgrímur verið einn okkar afkastamesti og vinsælasti barnabókahöfundur. Hann hefur þó ekki hlotið náð fyrir augum úthlutunarnefndar listamannalauna, hefur 25 sinnum verið synjað um úthlutun en aðeins tvisvar fengið þriggja mánaða laun. „Ég veit hann hefur tekið það nærri sér,“ segir gömul vinkona. „Hann er ekki skaplaus maður. Auðvitað sárnaði honum þessi höfnun, enda er hún alveg fáránleg. Hann hefur oft verið á topp fimm í vali þjóðarinnar á bestu rithöfundum í fjölmiðlum og það er bara kjánalegt af elítunni að hunsa hann.“
Mikið hefur verið rætt um góðmennsku Þorgríms eftir að hann tilkynnti um væntanlegt forsetaframboð og öllum sem rætt er við ber saman um að þar sé engu logið. „Þorgrímur er mjög hjálpsamur en þiggur sjaldan aðstoð sjálfur. Hann segir engum frá góðverkum sínum sem eru daglegt brauð hjá honum en ástæða fyrir því að ég veit af einhverjum þeirra er að fólk sem ég hitti á förnum vegi segir mér frá einhverju sem hann hefur gert eða ég fæ skilaboð um það á facebókinni,“ segir eiginkona hans. „Þó Þorgrímur sé þekktur fyrir ytri fegurð og fágun þá er hans innri fegurð ekki minni,“ segir gamall vinur. „Hann er traustur og trúverðugur og þú hreinlega veist ekki fyrr en þú hefur sagt honum þín dýpstu leyndarmál og vandamál. Þau eru vel geymd hjá Þorgrími og oft leyst á staðnum í góðu spjalli.“
Þorgrímur er þó ekki almáttugur, eins og halda mætti af lýsingum fólks á honum, matargerð er til dæmis ekki hans sterkasta hlið. „Ég held að hann sé með lélegt bragðskyn því hann hefur lítinn áhuga á mat og borðar eingöngu til að lifa af,“ segir eiginkonan. „Hann eldar en maturinn hans er lítið spennandi og einhvern tímann tók það hann fjóra klukkutíma að búa til grjónagraut; hann þurfti þrisvar sinnum að fara út í búð að kaupa meiri mjólk og skipta um pott nokkrum sinnum. Hann er mjög flinkur í mörgu og nokkuð vel að sér á mörgum sviðum en tæknimál eru ekki hans sterkasta hlið. Ég held hann kunni varla að kveikja á sjónvarpinu á heimilinu.“
Þegar leitað er svara við því hvort fólki þyki Þorgrímur eiga erindi í forsetaembættið eru svörin á eina lund. „Ég held að framboð hans verði til góðs fyrir umræðuna,“ segir fyrrum samstarfskona. „Hann tekur allt annan pól í hæðina en aðrir. Hann er ekki pólitískur í hefðbundnum skilningi, nema við köllum það pólitík að vera heittrúaður Valsari, en hann er mjög ástríðufullur og heitur í þeim málefnum sem hann trúir á, ekki síst þeim sem snúa að börnum, lestri og lífsviðhorfum, sem er auðvitað ákveðin pólitík. Hann leggur sig allan fram um að lifa og miðla, í gegnum sitt líf, starf og ekki síst skriftir, ákveðnum lífsgildum sem hann stendur algjörlega heill á bak við. Hann er fallegur, heilbrigður, heiðarlegur og hjálpsamur. Er það ekki markmið okkar allra?“

Þorgrímur Þráinsson

Fæddur í Reykjavík 8. janúar 1959

Foreldrar:
Þráinn Þorvaldsson
Soffía Margrét Vídalín Þorgrímsdóttir

Maki: Ragnhildur Eiríksdóttir

Börn:
Kristófer 23 ára, Kolfinna 19 ára, Þorlákur Helgi 15 ára

Nám og starfsferill:
Lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1980 og stundaði nám í frönsku við Sorbonne háskóla í París 1983-1984. Hann var blaðamaður hjá Fróða frá 1985 og ritstjóri Íþróttablaðsins og ritstjórnarfulltrúi barnablaðsins ABC frá 1989. Í lok árs 1996 var hann ráðinn framkvæmdastjóri Tóbaksvarnanefndar.

Knattspyrnuferill:
Þorgrímur lék með meistaraflokki Vals í knattspyrnu frá 1979 til 1990 og gegndi fyrirliðastöðunni síðustu fimm tímabilin. Áður lék hann með Víkingi frá Ólafsvík. Hann varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari á knattspyrnuferlinum með Val og tvisvar sinnum bikarmeistari. Þorgrímur lék alls um 180 leiki í efstu deild og 17 landsleiki fyrir Íslands hönd. Þá varð hann bikarmeistari í frjálsíþróttum með FH árið 1988 en hann keppti í spjótkasti.

Rithöfundarferill:
Þorgrímur hefur skrifað fjölda bóka fyrir börn og unglinga og var fyrsta bók hans Með fiðring í tánum sem kom út 1989 og varð metsölubók á sínum tíma. Hann hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 1997 fyrir bókina Margt býr í myrkrinu og aftur árið 2010 fyrir bókina Ertu Guð, afi?. Fyrsta skáldsaga hans fyrir fullorðna, Allt hold er hey, kom út 2004. Árið 2013 var hann útnefndur Borgarlistamaður Reykjavíkur og gegndi því hlutverki í eitt ár.

The post Fallegur, heilbrigður og heiðarlegur en glataður kokkur appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652