Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Boli verðlaunaður í Þýskalandi

$
0
0

„Við erum ótrúlega ánægð með þessa viðurkenningu. Á palli í þessari keppni eru mörg af flottustu brugghúsum heims um þessar mundir. Þetta er því mikil viðurkenning fyrir okkur,“ segir Guðmundur Mar Magnússon, bruggmeistari Ölgerðarinnar.

Bjórinn Boli vann til verðlauna á European Beer Star í Þýskalandi á dögunum. Þetta var í tólfta sinn sem keppnin er haldin en hún stækkar með hverju árinu. Að þessu sinni tóku 1.957 bjórar frá 45 löndum þátt. Veitt eru gull-, silfur- og bronsverðlaun í hverjum flokki og hlaut Boli silfurverðlaunn í flokknum German Style Festbier.

Meðal þekktra brugghúsa sem verðlaunuð voru á European Beer Star voru bandarísku brugghúsin Goose Island, Firestone Walker, Boston Beer Company, Left Hand Brewing Company, Sierra Nevada Brewing og Ballast Point auk OUD beersel frá Belgíu, Aegir Bryggeri frá Noregi og hins danska Hornbeer.

Ekki er langt síðan Boli var settur á markað hér á landi og hefur hann fengið góðar viðtökur. Hann flokkast sem Märzen/Octoberfest að þýskri fyrirmynd, er 5,6% að styrkleika með þéttu bragði og ágætri humlabeiskju.

Vörumerkið Boli var upphaflega lokaverkefni Róberts Einarssonar sem útskrifaðist úr grafískri hönnun í Listaháskólanum árið 2011. Róbert kynnti verkefnið fyrir Ölgerðinni sem sló til og re-brandaði Egils Premium sem naut lítillar hylli. Róbert færði vöruna í þjóðlegri búning og er Boli vísun í griðung íslenska skjaldarmerkisins sem á rætur sínar að rekja í Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Þar segir frá því þegar Haraldur konungur sendi galdramann í hvalslíki til Íslands að leita uppgöngu en landvættirnir snérust til varnar. Boli er þar verndari Vesturlands.

Boli kom á markað vorið 2012 og féll vel í kramið hjá íslenskum bjórdrykkjumönnum. Samkvæmt upplýsingum frá Ölgerðinni tók það ekki nema nokkra mánuði að slá við sölunni á Egils Premium og undanfarin tvö ár hefur salan svo meira en tvöfaldast. Gerir Ölgerðin ráð fyrir að selja um 650.000 lítra af Bola á þessu ári, sem jafngildir tæplega tveimur milljónum 33 cl flaska á einu ári.

The post Boli verðlaunaður í Þýskalandi appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652