Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Kórónaði frábært ár með því að klára stúdentsprófið

$
0
0

„Mig langaði til að klára eitthvað,“ segir Emmsjé Gauti um stúdentsprófið. „Gott að losna við hnútinn. Þetta hefur samt ekkert legið yfir mér en það er gott að klára það sem maður byrjar á,“ segir hann. „Ég fann mig ekkert þegar ég fór í menntaskóla 15 eða 16 ára gamall. Það var samt alltaf verið að hamra á því að maður þyrfti að fara í skóla. Pressan var ekki frá foreldrum mínum, heldur frekar bara frá samfélaginu,“ segir Gauti.
„Mér finnst í rauninni algert kjaftæði að pressa á mann að klára þetta próf þegar maður er ekkert tilbúinn í það. Ég fór bara frekar að búa til músík og ferðast,“ segir hann. „Ég fann mig á öðrum sviðum, en þegar ég fann hvað mig langaði að læra, og var aðeins búinn að róa hausinn á mér, þá ákvað ég að vinda mér í þetta. Þá var ég tvítugur eða 21 minnir mig,“ segir Gauti. „Ég tók þetta í dagskóla og dílaði bara við það. Seinustu áfangana tók ég að vísu í sumarskóla, en meirihluta námsins var ég dagskóla bara,“ segir hann.
„Ég er mjög sáttur. Ég hafði farið í grafíska miðlun í Tækniskólanum og þá átti ég ár eftir af stúdentsnáminu. Núna er ég kominn í pásu frá skóla,“ segir hann. „Ég hugsaði oft þegar ég sat í dönsku og stærðfræðitímum, Hvað í andskotanum er ég að gera hérna?,“ segir Gauti. „Sérstaklega í verkefnavinnu með 16 ára krökkum. Þau tóku mér bara mjög vel. Fólk á Íslandi böggar mann ekki nema það sé drukkið, það er svona reglan. Svo ég slapp á morgnana. Það var miklu meir kvíði í mér að vera með þeim í bekk en þeim. Ef maður stígur ekki út fyrir þægindarammann þá kemst maður ekki neitt,“ segir hann.
Emmsjé Gauti hefur verið einn vinsælasti tónlistarmaður ársins og á dögunum var hann ráðinn sem kynnir í þættina Ísland Got Talent sem byrja á Stöð 2 í janúar. Í haust varð hann svo faðir í fyrsta sinn. „Þetta er búið að vera gott ár,“ segir hann. „Þetta er allt búið að vera svo gaman, en ég held að ég skuldi sálinni eina sumarbústaðarferð eða svo. Einhvern tímann í góðu tómi.
Föðurhlutverkið er yndislegt í alla staði,“ segir Gauti. „Ég held að ég eigi eftir að fá almennilegan skell samt. Börn eru svo háð mömmu sinni í byrjun að ég held að ég eigi eftir að fá smá sjokk þegar tíminn líður,“ segir hann. „Þetta er samt alveg yndislegt. Nýja árið lítur vel út. Ég er spenntur fyrir þáttunum og um leið smá kvíðinn. Það er alltaf smá kvíði að sjá sig í nýju hlutverki, sem maður er ekki vanur. Þarna er ég meira ég sjálfur. Öðruvísi en þegar maður er að „performa“ í tónlistinni. Svo er planið að koma með nýja plötu á árinu,“ segir hann. „Það er mikið um að vera í rappinu. Gísli Pálmi gaf út frábæra plötu, og Úlfur úlfur voru með frábæra plötu líka. Svo það er pressa á mér að koma með geðveika plötu,“ segir hann. „Rappið er keppni. Þó við séum allir góðir vinir þá langar mig samt að rústa þeim, segir Emmsjé Gauti, tónlistarmaður, sjónvarpsmaður, faðir og nú stúdent.

The post Kórónaði frábært ár með því að klára stúdentsprófið appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652