Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra segir að ríkisstjórnin hafi lofað því í tengslum við kjarasamninga að húsnæðisfrumvörpin verði að veruleika: „Það væru hrein og klár svik ef við myndum ekki ljúka þessu. Þetta er eitt af rauðu strikunum í kjarasamningum og forsenda þess að friður verði á vinnumarkaði til lengri tíma,“ segir hún.
Frumvörpin eru alls fjögur talsins, frumvarp um húsnæðisbætur sem kostar um 2 milljarða á ári, frumvarp um almennar íbúðir sem kostar 1,5 milljarða árlega næstu fjögur árin en gert er ráð fyrir kostnaðinum við frumvörpin á fjárlögum. Þá eru frumvörp um breytingar á húsnæðissamvinnufélögum og breytingar á húsaleigulögum.
Margir sjálfstæðismenn eru ósáttir við frumvörpin og segja að þau verði aldrei að veruleika. Nærri ár er síðan ráðherrann lagði fram frumvarpið um húsnæðisbæturnar en fjármálaráðuneytið fór um það ómjúkum höndum í fyrravor.
Óvanalega víðtækt samráð
Eygló segir að það hafi verið tekið tillit til athugasemdanna eins og hægt var, það hafi til að mynda verið gerðar miklar breytingar á frumvarpi um almennar íbúðir. Hún segir óvanalegt að haft sé jafn víðtækt samráð um mál eins og raunin sé í þessu tilfelli. „Ég veit ekki betur en það sé unnið að því hörðum höndum í velferðarnefnd þingsins að afgreiða málið,“ segir hún. Eygló segir frumvörpin fela í sér miklar réttarbætur fyrir leigjendur: „Það er hinsvegar hefðbundinn málflutningur sumra að ríkið eigi aldrei að koma fólki til aðstoðar. Við eigum hinsvegar að gera það í þeim tilfellum þar sem þörfin er mest. Og ef einhversstaðar er fólk sem þarf á aðstoð að halda, þá er það á leigumarkaði,“ segir ráðherrann.
Annars þarf ráðherrann að fara
„Ég trúi því ekki að þetta verði stöðvað, þá þarf ráðherrann að segja af sér því hún hefur lagt allt undir í þessu máli og stjórnarsamstarfið hlýtur að vera í uppnámi,“ segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar. „Þetta loforð ríkisstjórnarinnar var leið til að leysa úr mjög alvarlegri stöðu á vinnumarkaði. Ég spái því að þetta verði að veruleika, annars væri fjármálaráðherra að gera sig að ómerkingi.“
Efnaminni einstæðir foreldrar græða minna á breytingunni en þeir njóta mests stuðnings í núverandi kerfi, samkvæmt greiningu fjármálaráðuneytisins á kostnaði við frumvarpið. Þær muni jafnframt leiða til hærri húsaleigu og hætt við að leigusalar geti þannig hagnast meira á breytingunni en leigjendur. Þar segir að hlutfallslega verði meira greitt niður af húsaleigu eftir því sem tekjur heimila eru hærri. Ekki verði séð að sú útkoma sé í samræmi við markmið frumvarpsins um að auka stuðning við efnaminni einstaklinga og fjölskyldur.
Eygló Harðardóttir bendir hinsvegar á að þetta sé fyrsta skrefið í þá átt að setja allan húsnæðisstuðning undir einn hatt og það sé mun stærri hópur að fá húsnæðisstuðning samkvæmt frumvarpinu en áður. Þeir sem hafi lægstu tekjurnar fái áfram hæstu bæturnar í krónum talið. Fjöldi fólks sem hafi ekki fengið neinn stuðning fái núna húsnæðisbætur og sé því að hækka hlutfallslega meira. Það sé auðvitað hægt að gagnrýna allar bætur á þessum forsendum, en líka skattalækkanir, eins og hafi sýnt sig.
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir
tka@frettatiminn.is
The post „Annað væru hrein og klár svik“ appeared first on Fréttatíminn.