Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Blindrafélagið stefnir Kópavogsbæ

$
0
0

Blindrafélagið hefur ítrekað sent lögfræðing á bæinn. Upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar segir engin áform uppi um að breyta þjónustu við blinda og sjónskerta.

Blindrafélagið ætlar að stefna Kópavogsbæ vegna ófullnægjandi þjónustu bæjarins við blinda og sjónskerta einstaklinga.
Eins og staðan er nú verða blindir og sjónskertir að nýta sér ferðaþjónustu fatlaðra í stað sérsniðinnar leigubílaþjónustu sem Garðabær og Reykjavík veita. Kristinn Halldór Einarsson, framkvæmdastjóri Blindrafélagsins, segir félagið ítrekað hafa sent kröfu í gegnum lögfræðing sinn um að þörfum tveggja skjólstæðinga félagsins verði mætt, en Kópavogsbær hafi ekki orðið við því. Í stað þess hafi bærinn bent á skólaakstur bæjarins og ferðaþjónustu fatlaðra.

Iva Marín Adrichem er ein þeirra einstaklinga sem telur á sér brotið. „Garðabær býður upp á ferðaþjónustu sem er sniðin að mínum ferðum. Ég nýti mér þá leigubílaþjónustu sem Blindrafélagið samdi um við Hreyfil og borga fyrir þjónustuna upphæð sem nemur almennu fargjaldi í strætó. Sveitarfélagið niðurgreiðir svo restina.“ Þegar fjölskylda hennar flutti í Kópavog komst hún svo að því að Kópavogur býður einfaldlega ekki upp á þessa þjónustu, því sveitarfélagið skrifaði á sínum tíma ekki undir samning við Blindrafélagið um leigubílaþjónustu fyrir blinda.

Nú verður Iva Marín því að nýta sér ferðaþjónustu fatlaðra, sem panta verður með sólarhrings fyrirvara. Þjónustan virkar þannig að oft er fólk í bílnum fyrir sem líka á að skutla á marga mismunandi staði. „Það er því ekki í boði fyrir mig að fara ferða minna fyrirvaralaust, sem skerðir lífsgæði mín verulega.“

Iva Marín þekkir fólk sem bjó í Kópavogi en missti sjónina og neyddist til að flytja, einfaldlega vegna þess að Kópavogur býður upp á litla þjónustu við blinda. Hún segir lausnina þó ekki endilega felast í því að sveitarfélögunum sé í lögum sett að bjóða öll upp á sömu þjónustu. „Málið er að sveitarfélögin ráða ekki öll jafn vel við kostnaðinn af þessu. Þess vegna held ég að það hafi verið mistök að færa kostnaðinn af ríkinu yfir á sveitarfélögin.“

Kristinn tekur undir orð Ivu og segir sveitarfélögin nota þjónustu sína við íbúa þeirra sem tæki til að stýra þjónustuþungum einstaklingum í önnur sveitarfélög. Samkvæmt lögum eigi ferðaþjónustan að uppfylla þarfir einstaklinga en ekki veita þjónustu sem miðuð er við meðaltal þarfa allra einstaklinga.

Sigríður Björg Tómasdóttir, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar, segir engin áform uppi um að breyta þjónustu við blinda og sjónskerta, en Kópavogsbæ sé kunnugt um að ferðaþjónusta fatlaðra sé ekki með sama hætti í bænum og í nágrannasveitarfélögunum. Samningurinn sem gerður var við verktaka um þessa þjónustu gildi til 2017. Því séu þessi mál ekki á dagskrá bæjarins á næstunni svo hún viti til. Þjónustan sem Kópavogur veiti sé þó í samræmi við reglur um þjónustu við fatlaða og sveitarfélögunum sé í sjálfsvald sett með hvaða hætti reglunum skuli fylgt. Hún segist jafnframt aðeins vita til tveggja tilfella þar sem einstaklingar hafi lagt fram kvörtun. Annað málið var vegna synjunar á akstri með leigubíl og var málinu vísað frá í héraðsdómi árið 2012, en hitt varðaði akstursþjónustu til blindra og fór það fyrir úrskurðarnefnd velferðamála. Í því máli var fallist á sjónarmið Kópavogsbæjar.
Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir
salka@frettatiminn.is

The post Blindrafélagið stefnir Kópavogsbæ appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652